Strandamanni hleypt í Kiljuna í kvöld

Sjónvarpsþátturinn Kiljan, sem sýnd verður í Ríkissjónvarpinu í kvöld, verður að hluta til dálítið ankringisleg þegar Jón Jónsson þjóðfræðingur kynnir bók sína: „Á mörkum mennskunnar.“ Ekki það að Jón sé á neinn hátt ankringislegur í mannfélaginu á Ströndum, heldur fjallar bók hans um förufólk sem þótti kannski sérkennilegt og stóð að hluta til utan við samfélögin fyrr á tímum. Í Kiljunni mun Jón segja frá rannsóknum sínum á flökkurum og förufólki fyrri alda, en þar má nefna sögufrægt fólk eins og Sölva Helgason, Látra-Björgu og Gvend dúllara. Förufólk voru þó einnig fátæklingar og veikir sem áttu stundum ekki annars kost en að flakka á milli bæja.

Frá sjónvarpinu ætlar Jón að stökkva í bókakynningu á Sauðfjársetrinu á fimmtudag. Í tengslum við Vísindavöku Rannís verður nefnilega haldið Vísindakaffi og útgáfuhóf á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum fimmtudaginn 27. sept. kl. 20:30. Þar kynnir Jón bókina „Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.“

Í kynningu á bókinni sem kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar segir: Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum. Hér er fjallað um þessar frásagnir og stöðu flakkara í samfélaginu fram á 20. öldina. Þeir voru umtalaður hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu.

Viðburðurinn er haldinn af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu í samvinnu við Vísindavöku Rannís.

Sæbjörg

bb@bb.is