Stjörnubjart laugardagskvöld

Ef spá gengur eftir má búast við heiðskíru veðri í kvöld, laugardagskvöld, og því tilvalið til að skoða stjörnuhiminn. Það eru um 2.500 stjörnur sýnilegar með berum augum sem allar tilheyra Vetrarbrautinni. Við bestu aðstæður má sjá Vetrarbrautina sem liggur eins og slæða yfir næturhiminn. Hægt er að sjá allt að fimm reikistjörnur með berum augum, og með sæmilegum kíki má koma auga á tungl Júpíters. Það er gott að fara á afvikin stað þar sem ljósmengun spillir ekki sýn.

Það er auðvelt að koma auga á Pólstjörnuna sem er einkennisstjarna himinsins, og var mikið notuð áður af sæfarendum sem áttaviti, en hún er alltaf í há-norðri. Þessi Norðurpóll himinsins er í skottinu á Stóra birni sem er stjörnumerki sem einnig líkist vagni (Karlsvagninn).  En stjörnumerkið minnir á vagn með handfangi og hjólum. Einfaldast er að skoða fjarlægð frá handfangi vagnsins að fremra hjólinu, og síðan að draga aðra línu frá því hjóli upp í gegnum framhluta vagnsins álíka langa; sú lína endar í Pólstjörnunni sem er bjartasta stjarnan í Stóra birni.

Eins og áður segir var Pólstjarnan notuð af sæfarendum sem auðveldlega gátu fundið norður og jafnframt gátu þeir mælt hæð hennar frá sjávarborði (gráðuhornið) til að fá breiddarbauginn.

Auðvelt er að koma auga á reikistjörnurnar en þær eru bjartari en aðrar stjörnur og eins má greinilega greina ferð þeirra yfir næturhiminn yfir tíma, utan við snúning jarðar. Ekki þarf að rýna mikið í næturhimin til að greina ljós sem fer yfir á miklum hraða, en það eru gervitungl sem varpa frá sér endurskini sólar. Reikistjörnur varpa reyndar einnig frá sér sólarljósinu, ólíkt öðrum stjörnum sem eru fjarlægar sólir.

(heimildir Stjörnufræðivefurinn)

Gunnar