Sólveig Ásta er heiðursplokkari Vesturbyggðar

Í tilefni alheimshreinsunardeginum 15. september „World Cleanup Day“ veitti sveitarfélagið Vesturbyggð Sólveigu Ástu Ísafoldardóttur viðurkenningu fyrir það frábæra starf sem hún hefur unnið í því að plokka á svæðinu.

Bæjarstjóri fór ásamt stjórn Lions heim til hennar og veitti henni viðurkenningu sveitarfélagsins og þakkaði fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins á sviði umhverfismála. Lions veitti henni fjárhagsstyrk fyrir verkefninu því þó svo hún gangi mikið um og safni rusli þá þarf einnig farartæki á landi til þess að koma ruslinu til skila og einnig hefur hún notast við bát þegar hún var niðri í fjöru og þurfti að ná upp stærra rusli sem rekið hafði upp.

Alheimshreinsun (World Cleanup Day) er haldinn þann 15. september 2018 og þann dag verða svæði hreinsuð samtímis í öllum heiminum. á Íslandi eru það Landvernd, Blái herinn, Plastlaus september, JCI Ísland, Lions og plokkara hreyfingin sjá um hvatningu og undirbúning dagsins, en fjölmörg samtök og einstaklingar taka þátt í átakinu í gegnum samtökin Let´s Do It! World www.letsdoitworld.org . Utanumhald á hreinsunum sem fara fram á Íslandi er á vefnum www.hreinsumisland.is

Þátttakendur munu leggja sitt að mörkum í mikilvægu og verðugu verkefni og vonandi hafa gaman af.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA