Nokkur þúsund manns sem koma í Klæðakot á hverju sumri

Þær Anna Jakobína og Halldóra reka Klæðakot á Ísafirði.

Þær stoppa ekki mikið eða lengi við þær Halldóra og Anna Jakobína í Klæðakoti á Ísafirði. Til þeirra koma mörg þúsund viðskiptavinir úr skemmtiferðaskipunum á hverju sumri og þess utan eru þær sífellt að breyta og bæta búðina, fá inn nýjar vörur og þróa úrvalið.

„Það hafa verið að koma hópar úr skemmtiferðaskipunum til okkar og til dæmis einn hópur sem kemur skipulega einu sinni til tvisvar á ári,“ segja þær. „Þetta eru ferðir sem eru skipulagðar fyrir prjónaklúbba og þá eru þetta svona 70 manns í prjónaklúbb sem er að koma hérna í senn. Og þær eru yfirleitt búnar að smita allar um borð, margar sem hafa kannski ekki prjónað í 30 ár og búnar að týna prjónunum og eru ekki með neitt garn eða neitt og verða að fá allt. Og þær koma hérna, 1000 konur og tæma búðina. Það er rosa stuð,“ segja Anna og Halldóra og hlæja hátt.

Þær byrjuðu að selja lopa og garn þegar þær fluttu með verslunina í núverandi húsnæði fyrir nokkrum árum. Fljótlega sáu þær þó að það tók of langan tíma í afgreiðslu að vera með garnið í laus og ákváðu að útbúa tilbúna pakka. Í pökkunum er uppskrift á ensku og passlega mikið af lopa. „Þetta reyndist strax rosalega vel og Íslendingar vilja fá svona líka,“ segja þær.

„Við erum alveg létt klikkaðar sko,“ bæta stöllurnar við þegar þær hafa gefist upp á að fá hillu til að losna af einum veggnum og tylla sér stundarkorn til að spjalla við blaðamann. „Við erum alltaf að fá nýjar hugmyndir, alltaf að breyta til, alltaf að fylla búðina með nýjum vörum og segjum alltaf: nei nú erum við hættar, nú gerum við ekki meir. Við segjum stundum í gríni að við eigum eftir að kaupa efri hæðina og setja rúllustiga upp eins og er í H&M.“

Jafnvel þó sumir segi að lognið eigi lögheimili í Skutulsfirði þá fer það líklega hratt yfir í Klæðakoti. Verslunin er ákaflega glæsileg og gaman að koma þangað inn. Úrvalið af hannyrðavörum, garni, efnum og barnafatnaði er frábært og sífellt bætist nýtt við eins og þær segja. Og vinnugleði og kátína Önnu og Halldóru smitar út frá sér, það er hreinlega gaman að eyða pening hjá þeim.

„Þetta er nokkur þúsund sem koma á hverju sumir,“ segir Anna Jakobína þegar blaðamaður spyr hvort þær hafi tölu á öllum viðskiptavinunum. „Minna á vorin og í september en þar á milli kemur talsverður fjöldi,“ bætir hin við. „Það er dálítið misjafnt eftir skipum og þjóðerni en margir sem koma líka til að skoða. En fyrst á vorin og haustin þá er eins og fólk af skemmtiferðaskipunum sé ekki hérna í verslunarferð. Þar á milli er mikið að gera og það myndast svona stemmning, fólk er bara í verslunarstuði, kemur og tæmir búðina. En þetta heldur versluninni rosalega mikið við og skiptir miklu máli því við búum á svo litlu svæði. Það er svo fátt fólk hérna að þetta hjálpar mikið. En við erum líka með netverslun til að stækka markhópinn og stefnum á heimsyfirráð,“ segir Halldóra. „Þetta verður eins og bætiefnabúllan,“ bætir Anna við og við hlæjum allar, enda er ekki hægt annað en að smitast af gleði þeirra og gamani.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA