Léleg berjaspretta á Vestfjörðum

BB kynnti sér berjasprettu á norðanverðum Vestfjörðum og eru viðmælendur sammála um að hún sé einmuna léleg þetta haustið. Samkvæmt heimildum hefur krækiberjauppskera algerlega brugðist hvort heldur er við Djúp, í Önundarfirði, Súgandafirði eða við Dýrafjörð. Um algeran uppskeru brest er að ræða, og lítið verður um að fólk geti saftað til vetrarforða. Aðalbláberjauppskeran er skárri, en mun minna af berjum og þau eru smærri en venjulega. Einn harðasti berjatínslumaður við Djúp segir uppskeruna ekki vera svipur hjá sjón; þar sem áður safnaðist um 20 lítrar af berjum eftir góða lautarferð, þyki nú gott að ná þremur til fjórum lítrum. Sá hefur farið í Hólana við Bolungarvík, Skutulsfjörðinn, Hestfjörð og víðar og alls staðar brestur uppskeru.

Svo eru það atvinnumennirnir sem tína aðalbláber fyrir mjólkurvöruframleiðandann Örnu í Bolungarvík. Þeir hafa þurft að sækja á fjarlæg mið, alla leið á Barðarströndina. En það er ekki einleikið og blaðamaður hitti tvo vaska Bolvíkinga sem voru að koma úr tínslu við Buná í Tungudal. Afraksturinn voru 40 lítrar af ágætum aðalberjum.

Samkvæmt heimildum BB er uppskerubresturinn rakinn til mikillar vætutíðar í upphafi sumars, sem kom sér illa fyrir býflugur og geitunga, sem eru nauðsynleg til að frjóvga berjalyngið. Það ásamt óvenju köldu og sólarlitlu sumri hefur komið berjasprettu illa. Blaðamaður bjó í Kanada um  um tíma og þar sá hann umfjöllun um bláberjabændur sem reka svokallaða „You Pick“ (sjálftýnslu), sem einmitt þurftu samhliða berjaræktuninni að koma sér upp býflugnabúi til að tryggja frjóvgun. Þetta er reyndar þekkt í grænmetisrækt en þar eru býflugur notaðar til frjóvgunar. Við könnumst öll við söguna um býflugurnar og blómin og hvað þurfi til að viðhalda og endurnýja lífið, hjá plöntum sem hryggdýrum.

Gunnar