Herra Guðni Th. heimsótti Flateyri þegar Lýðháskólinn var settur

Forseti Íslands, herra Guðni Th. með Mahmoud og Ahmad á Flateyri. Mynd: Mahmoud Ahmad Abudargham.

Það var mikið um dýrðir á Flateyri um helgina þegar Lýðháskólinn var settur í fyrsta sinn. Dagskráin var þétt á laugardaginn og margt gott fólk sem tók til máls á setningunni. Þeirra á meðal var herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Blaðamaður bb hitti Guðna í örstutt spjall og spurði af hverju hann hefði komið til Flateyrar af þessu tilefni.

„Mig langar til þess að leggja þessum skóla lið og ég vona og vænti þess að Lýðháskólinn á Flateyri muni vaxa og dafna og vera þeim til gagns sem hann sækja og samfélaginu öllu. Ég vil styðja þetta framtak en svo er það undir fólkinu komið að rísa undir þeirri ábyrgð, þetta er nýr skóli, þetta er óhefðbundið, sumir munu eflaust vera gagnrýnir eða jafnvel hugsi yfir þessu óhefðbundna formi en þá er það líka undir nemendum, kennurum og öðrum komið að sýna og sanna að þetta sé gæfuskref. Og ég er tilbúinn að taka þá áhættu,“ sagði Guðni, og bb.is þakkar honum fyrir einkar ánægjulegt spjall.

Í ræðu sinni sagði herra Guðni einnig að jafnvel þó hugmyndin um Lýðháskóla hefði ekki náð hljómgrunni á Íslandi hér áður fyrr, heldur hafi skólastarf þróast í aðra átt, þá þyrftum við fjölbreytni í mannlífinu og sama ætti við um skólastarf. Hann sagði jafnframt:

„Vissulega þarf að gera kröfur í námi, leik og starfi. Við viljum eiga verkfræðinga sem hafa sýnt og sannað að þeir viti sínu viti um burðarþol; við verðum að treysta því að nýútskrifaðir læknar kunni sína líffærafræði. Fólk í námi þarf að reyna á sig, leggja sig fram, finna kosti sína og efla þá.“

„En um leið þurfum við að rækta með okkur víðsýni og umburðarlyndi, vinna gegn þröngsýni og fordómum. Er sá læknir bestur sem kann allt í anatómíu en ekkert í mannlegum samskiptum? Er sá verkfræðingur frábær sem getur reiknað og teiknað öll heimsins mannvirki en ber ekkert skynbragð á samband manns og náttúru? Og sjálfsagðar kröfur mega ekki skapa ofurkvíða. Er það farsælt veganesi í framtíðina, sem fregnir berast af, að fjöldi háskólanema neyti örvandi lyfja til að geta kannski svarað betur spurningum á prófdegi? Er það rétt sem Kári Stefánsson sagði eitt sinn, að próf væru uppfinning andskotans?“

„Kæru nemendur lýðháskólans, og aðrir góðir gestir: Við þurfum fjölbreytni í mannlífinu, og þá að sjálfsögðu í skólakerfinu líka. Hér við þennan nýja skóla á Flateyri vantar ekki metnað þótt farnar séu ótroðnar leiðir að því marki að auðga einstaklinga og samfélagið um leið – byggðina hér, um gervallt landið og í raun víða veröld. Vissulega má varast klisjur. Það er hins vegar satt, sem oft er sagt, að enginn er góður í öllu en allir góðir í einhverju. Það skuluð þið staðfesta, nemendur og kennarar hins nýja skóla.“

Lófatakinu ætlaði aldrei að linna þegar forsetinn hafði lokið máli sínu enda vandfundnir jafn alþýðlegir og góðir menn. Leið hans lá víða um Flateyri þennan dag þó ekki hafi hann ratað á Vagninn um kvöldið. Þar fór fram stórkostleg tískusýning frá Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar þar sem fastir heimamenn og lausari við, sýndu nýjustu tísku. Villi naglbítur stýrði sýningunni af sinni einstöku snilld og að henni lokinni voru Lýðháskólanemendur boðnir velkomnir í samfélagið þegar allir brustu í söng undir stjórn Óla popp og vitaskuld var þjóðsöngurinn sunginn; Er það hafið eða fjöllin.

Meðfylgjandi myndir frá tískusýningunni tók Páll Önundarson.


Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA