Haustið komið

Haustið er komið og hefur sinn sjarma eins og aðrar árstíðir. Í venjulegu árferði er þetta tími berja- og sveppatínslu. Smalamennska er í fullum gangi og nú til dags þyrpast þéttbýlisbúar í sveitir til að taka þátt í smölun með hressum bændum í réttum. Oftar en ekki fer peli á loft og víða mikið sungið, enda er þetta mikil og skemmtileg uppskeruhátíð þar sem tekið er á móti fé af fjalli, sem eftir sumardvöl í frelsi vestfirskra fjalla skilar sér í góðum holdum heima á bæ.

En það eru ekki síst haustlitirnir sem heilla á þessum árstíma og skarta sínu fegursta fram í október. Ef stormar blása ekki laufum af trjánum geta skógur og lyngbrekka verið ægifögur. Sérstaklega þegar reynitré skipta yfir í rauðan lit og blandast við roðagulan litinn á birkinu. Það spillir ekki fegurð landslagsins þegar hvítir toppar fjallanna bera við himin.  Sigurverkið er fullkomnað þegar heiðskýra er, eins og veðurspáin er fyrir helgina, en sólin magnar upp liti og sveipar skóginn einstökum blæ.

Þessar myndir voru teknar nú um helgina í Tunguskógi, útvistarparadís Ísfirðinga.

Gunnar