Fyrirtæki á svæðinu hvött til að fara á Færeyska fyrirtækjasýningu

Edinborgarhúsið á Ísafirði.

Vestfirðingar fá góða heimsókn fimmtudaginn 20. september þegar 13 færeysk fyrirtæki halda í Edinborgarhúsinu fyrirtækjasýningu og viðskiptafundi. Með í för verður utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja auk sendiherra Færeyja á Íslandi.

Fyrirtækjum á svæðinu gefst kostur á að hitta færseysku fyrirtækin og skoða það sem þau eru að gera. Færeysku fyrirtækin eru af margvíslegum toga, nokkur tengjast þjónustu við sjávarútveg og fiskeldi, matvælaframleiðslu og bjórframleiðslu.

Fyrirtæki sem koma frá Færeyjum eru: SpF Aquamed.fo, Berglon, El-Talvuvirkið í Gøtu Sp/f, Föroya Bjór, Hdygd, KJ Hydraulik, KSS (Slippurinn í Klaksvík), LookNorth, Nomatek, Primafisk, Rock Trawl-doors, Vónin og Vest Pack.

Ísland og Færeyjar eiga með sér fríverslunarsamning, Hoyvíkursamningurinn, sem gerir Ísland og Færeyjar að sameiginlegu efnahagssvæði. Í þessum samningi eru því miklir þróunarmöguleikar.

Utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja, Paul Michelsen hefur boðið fulltrúum sveitarfélaga til fundar við sig af þessu tilefni og mun sá fundur snúa að því að efla og styrkja samband og samtal opinberra aðila.

Hér er um að ræða gott tækifæri til að mynda tengsl við Færeysk fyrirtæki og vill Vestfjarðastofa hvetja vestfirsk fyrirtæki til að nýta sér þetta góða tækifæri.

Sýningin er aðeins opin skráðum fyrirtækjum og því nauðsynlegt að fyrirtæki skrái sig til þátttöku með því að senda póst á netfangið reykjavik@uvmr.fo

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA