Af hverju flutti ég vestur?

Esther Ösp

Spurningin er eiginlega ekki hvers vegna ég flutti vestur, heldur hvers vegna ég er hérna enn?

Rúm fimm ár eru liðin frá því að ég lauk háskólanámi, í bili að minnsta kosti. Okkur kærastann langaði að prufa að flytja út á land, þetta var hálft í hvoru enn ein ævintýrabólan sem ég varð að kreista og skynsamleg leið til að gefa nýrri samsettri fjölskyldu tíma, rúm og næði til að slípast betur saman. Okkur fannst því kjörið að fara eitthvert þar sem hægt væri að fá öruggar tekjur fyrir litla vinnu og þar sem ekkert væri um að vera svo að við hefðum nægan tíma til að dunda og njóta saman, alveg óáreitt.

Staðsetningin Hólmavík var hrein og klár tilviljun, auglýsing um spennandi starf kom fyrst þaðan og ég var ráðin. Forlögin höfðu þetta þó alltaf á áætlun en núverandi maðurinn minn, sá sem flutti einmitt með mér vestur, er einmitt fyrsti strákurinn sem ég hef orðið skotin í sem ekki er Vestfirðingur. Þetta hefur því eflaust alltaf átt að liggja fyrir mér.

Sjálf átti ég jú einhverntíman forfeður á Barðastönd og mamma var í sveit í Djúpinu. Tengslin voru þó það lítil að fyrsta heimsókn mín á Vestfirði var á eigin vegum, einmitt með gömlum kærasta. Nú, eftir fimm ára búsetu á Ströndum eru tengslin þó orðin órjúfanleg. Ég sem hafði enga trú á að ég myndi endast lengur en til að safna pening fyrir næsta ævintýri.

Þessi tími hefur verið gerólíkur því sem ég bjóst við. Ég hef nánast ekkert púslað og alls ekkert prjónað, enda er félagslífið líflegt og alltaf nóg við að vera. Hér tek ég virkan þátt í leikfélagi, syng í kirkjukór í hjáverkum, er í misvirkum hlaupahóp, fer bráðum í sjósundshóp, fer í vikulegan stelpuhitting á barnum, hef keppt í ýmsum greinum íþrótta og lista og kenni jóga nokkrum sinnum í viku. Hér er ég gjaldgeng , góð og velkomin í fjölbreyttan félagsskap, jafnvel þótt ég geti ekki gefið í það fleiri klukkustundir á viku, sérnám og fleirihundruð þúsund krónur. Hér tek ég þátt í alls konar en sem foreldri í fullu starfi í Reykjavík, nær engu.

Ég hef einnig fengið að vaxa og dafna faglega. Hér hef ég verið tómstundafulltrúi, viðburðarstjóri, kennari, leikstjóri, sýningarhöfundur, þýðandi, verkefnastjóri og sýningarstjóri svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess hef ég sinnt rannsóknarstörfum og menntað mig meira, hlotið hvatningarverðlaun fyrir framlag mitt til menningarmála, tekið þátt í að breyta tækifærum ungs fólk svo um munar og stofnað mitt eigið fyrirtæki sem byggir á mér og minni þekkingu. Tækifærin til þroska og þekkingar eru óþrjótandi.

Að taka þátt í alls konar gerir mig líka víðsýnni. Eftir að ég flutti á Strandir áttaði ég mig á því að ég hafði búið í pínulitlu fiskabúri þar sem allir voru eins og ég. Það var ekki að undra að ég hafði aldrei skilið hverjir kysu hina flokkanna, kvótatal eða gjá á milli borgar og sveita, ég talaði bara við fólk sem sama bakgrunn og sömu heimssýn og ég. Hér er öldin önnur, við erum fá og við tengjumst öll á einn eða annan hátt. Í fámenninu þrífst fjölbreytnin og allt litrófið fær sitt rými og hefur áhrif á aðra. Hér á ég safn góðra vina, hver öðrum ólíkari, og saman stækka þeir minn reynsluheim til muna.

Það er þó ekki þetta sem hefur úrslitaáhrifin. Trompið er á hendi barnanna minna. Það eru eflaust allir meðvitaðir um kosti þess fyrir börn að búa í návígi við náttúruna. Hitt vita færri, hvað þjónusta við börn er framúrskarandi, í það minnsta í Strandabyggð. Hér er samfelldur dagur, svo skólabörn stunda allar sínar tómstundir í flæði sem alltaf er lokið fyrir klukkan 16 á daginn og börn komast á leikskóla 9 mánaða.

Esther, Eiríkur og tvö af þremur börnum þeirra.

Það allra besta er úrvalsþjónusta við börn með sérþarfir. Þegar sonur minn var greindur einhverfur og þroskaskertur var fyrsta hugsun mín að nú yrðum við að flytja suður, það var rangt. Hér hefur hann fengið alla þá aðstoð sem hann hefur rétt á og meira til. Við skólanna starfa þroskaþjálfar, sérkennarar og iðjuþjálfar auk stuðningsfulltrúa og framúrskarandi kennara. Talmeinaþjálfun fær hann vikulega í gegn um netið og drengurinn, sem er með málþroskaröskun, skáldar núna lygasögur eins og ekkert sé. Gæði þess að búa í litlu þorpi eru sömuleiðis ómæld. Hér fær fatlaður einstaklingur frelsi til að vappa um og læra á heiminn, því allir þekkja hann og hann þekkir alla. Hér getur hann gengið á milli húsa og kannað umhverfið í stað þess að gleymast í þjónustubifreið fyrir fatlaða og vera stöðugt undir eftirliti.

Gæðin við að búa fyrir vestan er svo ótalmörg. Hvort sem það er minni streita, betri þjónusta við börnin eða færri klukkustundir í umferðarteppu sem valda að þá er tíminn og orkan meiri. Þar af leiðir að ég geri meira. Meðfram fullu starfi sem kennari og því að eiga þrjú börn, ketti og hús og ásamt því að hlaupa reglulega, sinna leiklist og kór hef ég stundað nám í jógakennarafræðum. Nú hef ég stofnað mitt eigið fyrirtæki sem farveg fyrir það sem ég kann, eflingarsetrið Hvatastöðina.

Ég er þess fullviss að líf mitt væri mun fátæklegra, sjálfsmynd mín lakari og ferilskráin styttri ef ég hefði ekki komið Vestur. Eins og góð vinkona mín sagði mér um daginn: „Olnbogarýmið er bara svo miklu meira úti á landi.“

Mig langar til að skora á Láru Eyjólfsdóttir á Tálknafirði að segja okkur frá því hvers vegna hún flutti Vestur og er hér enn, áratugum síðar.

Esther Ösp Valdimarsdóttir, Hólmavík

DEILA