Westfjords Adventures með rútuferðir á Vestfjörðum fram í miðjan september

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Ferðaþjónustufyrirtækið Westfjords Adventures hefur verið með rútuferðir í sumar milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar og mun bjóða upp á þá þjónustu fram í miðjan september. Ekið hefur verið þrisvar í viku í samræmi við siglingar ferjunnar Baldurs á Brjánslæk. Rútan stoppar stutt við á Þingeyri og í Flókalundi og einnig stoppar hún í hálftíma við Dynjanda María Ragnarsdóttir, starfsmaður Westfjords Adventures segir að ferðamenn séu duglegir að nýta sér samgöngurnar en að heimamenn mættu nýta þjónustuna betur að hennar mati.

„Þetta er auðvitað fyrir alla en það eru helst ferðamenn sem nýta sér þetta. Þjónustan hófst 15. maí og fram til 1. júní þurfti að bóka í rútuna, en eftir 1. júní þá höfum við keyrt alltaf alla daga og þarf ekki að bóka pláss fyrirfram. Svo keyrum við alla daga til 31. ágúst en eftir það, eða til 15. september þarf aftur að bóka pláss.“ segir María.

María segir að þetta séu einu rútuferðirnar á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða og að forsvarsmenn fyrirtækisins myndi gjarnan vilja hafa þjónustu alla virka daga en hún segir það því miður ekki vera mögulegt eins og er.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA