Voru ekki lengi að synda yfir einn fjörð eins og kýr!

Garparnir sem synda eins og kýr. Mynd: Ísabella Ósk Másdóttir.

Það voru fræknar konur og karlar sem skelltu sér til sunds út af Flateyrarodda nú fyrr í dag. Ellefu manns syntu yfir Önundarfjörð, frá Flateyri og yfir í Valþjófsdal, líkt og kýrin Sæunn Harpa gerði á árum áður til að bjarga lífi sínu. Enginn þurfti á slíkri björgun að halda núna, enda eru þetta þaulvanir sundgarpar sem stungu sér í gegnum straumana. Tímataka var á hverjum sundmanni, en sumir voru með froskalappir, aðrir ekki og sumir voru hreinlega bara í sínum venjulegu sundfötum og tímarnir verða birtir síðar.

Það var hann Albert Högnason sem kom þó fyrstur yfir fjörðinn og fast á hæla honum fylgdi Gullrillan Ólöf Dómhildur. Járnhjónin Kata og Steini komu þar á eftir og strollan jafnt og þétt í kjölfar þeirra. Aðrir keppendur voru þau Arna Lára, Siggi Pé, Kristbjörg, Sif Huld, Bobbi, Lisa og Ragnheiður Valgarðsdóttir.

„Sjórinn var um 10 gráður og þetta gekk mjög vel. Þau voru rétt um klukkutíma að synda yfir,“ sagði Bryndís Sigurðardóttir þegar BB talaði við hana. „Björgunarsveitirnar hérna í kring aðstoðuðu okkur og eiga miklar þakkir skildar, eins og Sigurður Hafberg sem var hérna með kajakana sína. Þegar sundfólkið kom í land var tekið vel á móti þeim með kaffi og meððí og í kvöld er hátíðarkvöldverður á Vagninum þar sem veittar verða viðurkenningar,“ segir Bryndís. Hún segir engan vafa leika á því að þetta verði endurtekið að ári og þá geta fleiri prófað að synda eins og kýr.

Meðfylgjandi myndir eru frá Ísabellu Ósk Másdóttur.

 
Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA