Vill að Tálknafjörður sameinist Vesturbyggð

Tálknafjörður.

Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir, bæjarstjórnarmeðlimur Tálknafjarðar ákvað á dögunum að slíta samstarfi sínu við lista óháðra og situr því ein og óháð eftir þá ákvörðun. Hennar helsta baráttuefni er sameining bæjarins við Vesturbyggð. Ingibjörg Ósk sagði blaðamanni BB að ef einhver er tíminn til þess að íhuga sameiningu við Vesturbyggð þá sé það núna. Hún segist trúa því að krafturinn felist í fjöldanum og sameining sé ekki það sama og uppgjöf eða neyðarúrræði.

Að mati Ingibjargar þá skal ávallt berjast fyrir sínu bæjarfélagi og hún segir að sama hversu fáir íbúarnir séu þá beri ávallt að bjóða þeim uppá grunnþjónustu. Að hennar mati er róðurinn þungur og verður það áfram þar sem sveitarfélagið sé fámennt og útsvarið lítið sem ekki neitt. Sameining stuðli því að betri þjónustu við íbúana, betri nýtingu fjármuna, bættum búsetuskilyrðum og bættri stjórnsýslu. Ingibjörg segir að lokum að aðalmálið sé að semja rétt og semja ekki ákvæðislaust og bætir við að málið snúist ekki um stolt eða uppgjöf heldur raunsæi.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA