Vill að leikskólinn í Hnífsdal verði að félagsmiðstöð

Hnífsdalur

Íbúar í Hnífsdal hafa rætt það sín í milli að fá að gera gamla leikskólann að félagsaðstöðu, þar sem fólk getur komið saman að spjalla, spila og sinnt öðrum tómstundum. Hugmyndin er einnig að grilla saman einu sinni á sumri fjölskyldu og sitthvað fleira sem fólki dettur í hug.
Kristján Pálsson, íbúi í Hnífsdal er í forsvari fyrir þennan hóp og hefur beitt sér fyrir því að hugmyndin verði að veruleika. Hann mun kynna þessar hugmyndir fyrir íbúasamtökunum á aðalfundi mánudaginn 27. ágúst.

Kristján segir að byggingin sé í niðurníðslu í dag, en engin starfsemi hefur verið þar síðan leikskólinn lokaði árið 2008. „Kvenfélagskonur í Hnífsdal gáfu Ísafjarðarbæ húsið fullbúið árið 1980, en bærinn skaffaði lóð og girðingu. Það höfðu margar ungar fjölskyldur flutt hingað til Hnífsdals og kvenfélagskonur í Hnífsdal afhentu Ísafjarðarbæ húsið. Svo var þesssi skóli rekinn til ársins 2008. Þá kom snjóflóðamat og þetta var talið vera á snjóflóðasvæði og íbúar sem áttu börn þarna settu út á starfsemina. Auk þess lagði byggðin á Árvöllum af, því snjóflóðin á Flateyri og Súðavík höfðu þau áhrif að bærinn ákvað að kaupa hús af íbúum þar. Síðan þá hefur þetta verið í niðurníslu.“ segir Kristján.

Að sögn Kristjáns hefur hann fengið góðan stuðning með þessar hugmyndir.„ Ég hef fengið góðan stuðning við mínar hugmyndir og ég mun kynna þær á fundi íbúasamtaka í kvöld sem er aðalfundur. Ég ætla að stofna þriggja manna hóp og byrja á því að tala við bæjaryfirvöld um að húsið verði lagað að utan og girðingin og að Ísafjarðarbær afhendi Hnífsdælingum húsið til umráða, eftir að búið er að stofna félag utan um þetta. Við gætum svo búið til félagsaðstöðu fyrir alla Hnífsdælinga og hugmyndin er að hafa leiktækin áfram þarna á leikvellinum þar sem börn geti leikið sér svo þetta getur nýst fyrir alla aldurshópa.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA