Það er ekki blúshátíð á hverjum degi

Aðsend mynd frá Blúshátíðinni.

Blúshátíðin Milli fjalls og fjöru verður haldin í sjöunda sinn dagana 31. ágúst og 1. september næskomandi. Það er Páll Hauksson sem er upphafsmaður þessarar hátíðar. Hann sagði blaðamanni BB að hátíðin hafi byrjað frekar smátt en hafi svo undið upp á sig. „Þetta byrjaði sem ein kvöldstund en þróaðist yfir í að vera tvö kvöld og hefur haldið áfram að þróast. Húsnæðið sem við vorum í á Vatneyrinni var orðið of lítið og því erum við komin upp í félagsheimilið með þetta og það veitir ekkert af því. Vorum fyrst í Sjóræningjahúsinu og mér fannst eldsmiðjan þar vera blúsaðasti staður í heimi og ef einhversstaðar ætti að halda svona hátíð þá væri það þar. Þannig var upphafið af þessu, staðsetning og hugmyndin spiluðu svo vel saman. En eins og ég segi, þá er þetta er alltaf að stækka og að spyrjast meira út.“ segir Páll.

Þetta árið verður Sniglabandið með tónleika fyrra kvöldið. Þeir verða með tíu til tólf manna band að sögn Páls og ætla að taka fyrir lokatónleika hljómsveitarinnar The Band. Fyrir 30 árum síðan hélt sú hljómsveit tónleika með mörgum listamönnum, Bob Dylan, Eric Clapton, Dr. John að ógleymdum Muddy Waters. Páll segir að þetta sé mjúkur blús, léttur og þægilegur fyrir alla, ekki gamaldags tregablús.

„Á laugardeginum kemur svo Mugison með fimm manna band, hann er mikill áhugamaður um blús og er spenntur að koma. Svo á eftir þeim er hljómsveitin Kentár. Hún hætti líka fyrir 30 árum síðan, þá fóru menn í önnur verkefni eins og gengur og gerist en þegar þeir byrjuðu að spila þá voru þeir það ungir að þeir máttu ekki vera á sviðinu. En þeir setja bandið saman fyrir okkur hérna núna.“ segir Páll.

Páll segir að það sé geysilega skemmtileg stemning sem myndast á þessari hátíð. „Svo eftir tónleikana verður djamm á eftir, þeir sem kunna á hljóðfæri geta farið upp á svið og spilað. Þetta er gert á hátíðum erlendis, þá geta gestir og gangandi djammað saman, það er svakalega gaman.“ Páll leggur áherslu á að það sé ekkert langt á milli bæja á Vestfjörðum á þessum árstíma og vill sjá sem flesta Vestfirðinga koma á Patreksfjörð og eiga góða helgi, það sé nú ekki blúshátíð á hverjum degi. Hann segir að nóg sé til af gistingu, til að mynda sé tjaldsvæðið á Patreksfirði staðsett við félagsheimilið.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA