Sýningaropnun í Gallerí Úthverfu á Ísafirði

Þættir úr náttúrusögu Óeirðar.

Á morgun, 11. ágúst kl. 16 opnar Unnar Örn sýninguna Þættir úr náttúrusögu óeirðar || On the Natural History of Unrest í Úthverfu á Ísafirði.

Sýningin Þættir úr náttúrusögu óeirðar markar endalok vettvangsathugunar Unnars Arnars á sögu óeirðar hér á landi þar sem hann hefur kannað hvernig óeirð birtist í sameiginlegu minni þjóðarinnar með margvíslegum hætti. Unnar hefur beint sjónum að togstreitunni á milli opinberrar sögu samfélagsins og frásagna úr lífi einstaklinga í verkum sínum, en að undanförnu hefur hefur hann einblínt á birtingarmyndir af átökum og óhlýðni fjöldans. Verk með áþekku viðfangsefni voru m.a. í sýningunum Brotabrot úr afrekasögu óeirðar: II. hluti á Listasafn ASÍ árið 2014, sýningunni Niðurinn í Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 2015 og sýningu Þættir úr Náttúrusögu óeirðar í Harbinger sýningarrými í Reykjavík árið 2016.

Líkt og oft áður er hluti verkanna sem Unnar Örn sýnir í formi prentaðs efnis, útgáfu sem taka má með sér af sýningunni. Að þessu sinni er það bók sem samnefnd er sýningunni og inniheldur ljósmyndir sem birta óeirð af einhverju tagi. Þær sýna hvers kyns samkomur sem farið hafa fram hérlendis; mótmæli, fjöldagöngur, jafnvel hátíðir eða formlegar athafnir valdhafa. Ljósmyndirnar spanna tímabilið frá 1880 til dagsins í dag en verkið er að mestu leyti unnið upp úr heimildum af Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Útgáfan sýnir hvernig Unnar beitir miðli bókarinnar á markvissan hátt til að að draga fram og skoða viðfangsefni sín á sjónrænan hátt. Verkið bætist í safn bókverka sem hann hefur gefið út á síðustu 10 árum og mynda einstakt höfundarverk íslensks myndlistarmanns.

Unnar Örn lauk Mastersnámi við Listaháskólann í Malmö árið 2003 og útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 1999. Í myndlist sinni vinnur Unnar Örn gjarnan með staðreyndir, frásagnir og merkingu Sögunnar, og gefur henni annað samhengi innan ramma myndlistarinnar.

Sýningin er opin eftir samkomulagi. Henni lýkur sunnudaginn 9. September.

Þættir úr Náttúrusögu óeirðar
Sýningin Þættir úr náttúrusögu óeirðar (On the Natural History of Unrest) markar endalok vettvangsathugunar Unnars Arnars á sögu óeirðar hér á landi þar sem hann hefur kannað hvernig óeirð birtist í sameiginlegu minni þjóðarinnar með margvíslegum hætti. Unnar hefur beint sjónum að togstreitunni á milli opinberrar sögu samfélagsins og frásagna úr lífi einstaklinga í verkum sínum, en að undanförnu hefur hefur hann einblínt á birtingarmyndir af átökum og óhlýðni fjöldans.

Titillinn Þættir úr náttúrusögu óeirðar og form bókarinnar sem er í litlu vasabroti, minnir á kennslurit. En hvaða sögu er hér verið að segja? Ólíkt kennslubók er ekki um að ræða hefðbundna línulega frásögn þar sem atburðum er fylgt eftir í tímaröð, því heimildirnar sem Unnar Örn notar hafa löngum glatað markmiði sínu og inntaki. Heimild um einn atburð verður minning um annan í tímans rás. Ljósmyndir eru ávallt sviðsettar, myndavélin rammar inn ákveðið myndefni og útilokar um leið annað. Til verður ný frásögn í bókinni þar sem Unnar endurtekur verknaðinn með því að endurramma myndirnar og beina athyglinni að spennu í myndfletinum. Í myndum á veggjum gallerísins, sem ekki eru að finna í bókinni, er auk þess beitt annarri grunntækni ljósmyndarinnar og þær sýndar negatífar. Verkin eru neikvæð, ljósi og skugga hefur verið snúið við, og gefa til kynna ástand óeirðar.

Hvað sýna myndirnar okkur? Við mætum átökum á myndfletinum, segir í texta Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar sem birtist í bókinni, og verðum undrandi þegar við stöndum frammi fyrir óþekktum ljósmyndum. Þegar við stöndum frammi fyrir verkunum á sýningunni verður okkur mögulega hugsað til þess sem skilur á milli raunverulegra aðgerða fjöldans og myndbirtingar þeirra í sögunni. Það kviknar óljós hugmynd um samstöðu, minning um óeirð sem átti sér stað og mun jafnvel eiga sér stað aftur. Í heild er sýningin Þættir úr náttúrusögu óeirðar því ekki endapunktur, heldur til marks um áframhaldandi athugun Unnars Arnars á birtingarmyndum sem tengjast sameiginlegu minni fólksins, þar sem borin er kennsl á mörkin á milli þess sem er skrásett og sviðsett, og þess sem hefur ekki ratað í opinbera frásögn þjóðarinnar. – Heiðar Kári Rannversson

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja rekstur Gallerís Úthverfu.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA