Sveitarstjórastaðan á Tálknafirði auglýst aftur

Tálknafjörður. Mynd: Julie Gasiglia.

Minnihluti sveitarstjórnar Tálknafjarðar sendi frá sér tilkynningu nýverið þar sem sagt var frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að auglýsa aftur eftir sveitarstjóra á Tálknafirði þar sem viðræður við líklega kandídata báru ekki árangur. Starf sveitarstjórnar Tálknafjarðar er að hefjast aftur eftir sumarfrí og hefur mikil vinna farið í að koma fundarkerfi sveitarfélagsins í rétt horf. Nú eiga allar fundargerðir að vera komnar inn á heimasíðu sveitarfélagsins.

Unnið er að afstemmingu bókhalds fyrir milliuppgjör til að sveitarstjórn fái sem gleggsta mynd af stöðu sveitarfélagsins. Næsti fundur sveitarstjórnar verður svo fimmtudaginn 16. ágúst en það er viku seinna en fundarsköp sveitarfélagsins segja til um. Frestunin kemur til vegna sumarfría á skrifstofu. Skrifstofan opnaði aftur síðastliðinn mánudag og komst þá starfsemi sveitarfélagsins aftur í reglubundið horf.

Vonir eru bundnar við að koma á útsendingu af fundum sveitarstjórnar sem allra fyrst þannig að íbúar geti fylgst betur með umræðum um málefni sveitarfélagsins. Báðir listar lofuðu opinni og gegnsærri stjórnsýslu og segir í tilkynningu minnihlutans að það ætti því ekki vera ágreiningur um útsendingar funda. Segir að stefnan sé að halda íbúum Tálknafjarðar upplýstum um það sem efst er á baugi hverju sinni á heimasíðu sveitarfélagsins og að það verði vonandi til að efla góða og jákvæða umræðu í samfélaginu.

Aron

aron@bb.is

DEILA