Styrkbeiðni í tilefni 60 ára afmælis Sjálfsbjargar á Ísafirði

Hafsteinn Vilhjálmsson, Guðný Sigríður Þórðardóttir og Magnús Reynir Guðmundsson mættu til fundar bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 27. ágúst síðastliðinn fyrir hönd Sjálfsbjargar – félags hreyfihamlaðra í Ísafjarðarbæ. Erindi þeirra var að fylgja eftir ósk um 80.000 króna styrk vegna 60 ára afmælisfagnaðar félagsins. Á fundinum var einnig rætt um önnur hagsmunamál félagsins og bæjarráð samþykkir styrkbeiðnina.

Þann 29. september eru 60 ár liðin frá stofnun Sjálfsbjargar á Ísafirði en félagið kennir sig í dag við Ísafjarðarbæ. Félagið hefur frá upphafi unnið að hagsmunamálum fatlaðra og sérstaklega þeirra sem eiga við hreyfihömlun að stríða. Enn í dag eru aðgengismál fatlaðra óásættanleg víða um og land og meðal annars í Ísafjarðarbæ.

Í erindi félagsins til bæjarráðs, kemur fram að um nokkurra ára skeið hafi helsta tekjulind Sjálfsbjargar verið húsaleiga af húsnæði sem félagið eigi með S.Í.B.S við Mjallargötu á Ísafirði og hafi tekjurnar gengið óskiptar til skjólstæðinga félagsins á heimaslóð. Í ársbyrjun hafi leigutíma lokið og húsnæðið staðið autt en nú séu uppi áform um að selja það. Vegna þessa eru fjárráð Sjálfsbjargar takmörkuð og leitar félagið þess vegna eftir fyrrnefndum stuðningi. Auk þess óskar Sjálfsbjörg eftir fundi með bæjarráði Ísafjarðarbæjar til að ræða málefni félagsins og þá sérstaklega aðgengismálin, sem eru helsta hagsmunamál hreyfihamlaða á Íslandi.

Aron Ingi
aron@bb.is