Strandir og Reykhólahreppur veita stuðning vegna leigukostnaðar ungmenna í námi

Hólmavík. Mynd: Jón Jónsson.

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps veita sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist, námsgörðum eða á almennum markaði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili.

Þetta kemur fram á vef Strandabyggðar en þar segir einnig að þegar fleiri en einn nemandi leigja saman íbúð getur húsnæðisstuðningur náð til þeirrar leigu enda sé gerður leigusamningur við hvern og einn. Um leigu á almennum markaði er gerð krafa um að hvorki umræddur nemandi né aðrir sem leigja húsnæðið séu náskyldir eða mikið tengdir leigusala. Sérstakur húsnæðisstuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 60% af leigufjárhæð. Fjárhæð styrks skal þó aldrei nema hærri upphæð en 22.000 kr. á mánuði. Lágmarksgreiðsla foreldra eða forsjáraðila skal vera 10.000 kr. á mánuði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns.

Reglurnar og málsmeðferð er þannig að umsóknir skulu berast á skrifstofu Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps á þar til gerðum eyðublöðum. Þá þarf að skila inn vottorði frá viðkomandi menntastofnun sem staðfestir nám umsækjanda. Félagsþjónusta afgreiðir umsókn eins fljótt og unnt er eftir að hún berst og niðurstaðan er kynnt umsækjanda.
Ef umsókn er hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan í reglurnar. Jafnframt skal umsækjanda kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála. Segi umsækjandi upp leigu eða breyting verði á leigugreiðslu ber að tilkynna það til Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA