Skapandi fólksfækkun í Blábankanum

Málstofan fer fram í Blábankanum þann 1. september. Mynd: Blábankinn.

Þann 1. september næstkomandi verður málstofan Skapandi fólksfækkun haldin í Blábankanum á Þingeyri. Umfjöllunarefni málstofunnar er skapandi leiðir til að bregðast við fólksfækkun. Að málstofunni standa Simbahöllin / Westfjord Residency og Blábankinn í samstarfi við japanska arkitektinn Yasuaki Tanago. Sendinefnd frá japanska þorpinu Kamayama og Tókíóborg mun einnig taka þátt ásamt sendiherra Japan.

Aðalfyrirlesari málstofunnar, Shinya Ominami, mun halda fyrirlestur um nýjungar sem reynst hafa vel við að snúa vörn í sókn í fjallaþorpinu Kamiyama sem glímdi um árabil við fólksfækkun, atgervisflótta og hækkandi meðalaldur íbúa en þar stóðu mörg hús tóm þar til gripið var til skapandi aðgerða fyrir um tuttugu árum.

Ominami hefur lýst stefnunni um skapandi fólksfækkun á þennan hátt:

„Sætta sig við raunveruleikann um fólksfækkun. Að reyna ekki að breyta honum hvað varðar hausatalningu heldur í innihaldi. Að stefna að staðbundnu samfélagi sem sé í jafnvægi, sjálfbært og minna háð landbúnaði með því að laða að ungt skapandi og hæfileikaríkt fólk að utan til þess að skapa heilbrigða samsetningu samfélagsins; með því að nýta tækni-innviðini hér og með því að auka samkeppnishæfni okkar sem stað fyrir atvinnulíf með því að þróa nýjar aðferðir sem það getur unnið eftir.“

Í málstofunni mun Yasuaki einnig flytja erindi ásamt fleirum en fjallað verður um stöðu Þingeyrar, hvað áunnist hefur og framtíðarsýn. Eftir málstofuna verður efnt til umræðna fyrir þátttakendur. Áætlað er að dagskrá hefjist með göngu um Þingeyri fyrir hádegi en málstofan sjálf og umræður hefjast kl. 13:30 og standa til kl. 17:00. Á sunnudaginn verður einnig íslensk kynning sem Ominami og Yasuaki munu kynna á styttri og íslenskri útgáfu. Kynningin verður í boði fyrir alla og byrjar kl.14:00.

Í tengslum við málstofuna verður japönsk menningardagskrá þar sem efnt verður til tónleika, kvikmyndasýninga og kennslu í origami og japanskri skrautritun. Sjá meðfylgjandi dagskrá. Það er því um að gera að kíkja á þessa málstofu þar sem gefst einstakt tækifæri til að fræðast og ræða nýjar, skapandi leiðir til að styrkja samfélög sem glíma við fólksfækkun og atgerfisflótta.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA