Ósátt við stöðvun á endurnýjun gistileyfa

Eigendur Massa þrifa á Ísafirði eru mjög ósátt við þá stefnu Ísafjarðabæjar að stöðva endurnýjun á gistileyfum. Þau biðla til stjórnenda bæjarins að endurskoða stefnu sína í þessum málum. Þetta kemur fram í bréfi til bæjarstjórnar en málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi 13. ágúst. Eigendurnir, þau Árni Þór Árnason og Mimmi Ivonen, segjast gera sér grein fyrir hvaða áhrif þetta gistiform hefur haft á leigumarkaðinn í bænum en segja að það megi heldur ekki gleyma, því að fasteignaverð hefur hækkað, sem er að miklu leyti þessari starfsemi að þakka. Í bréfinu kemur fram að eigendunum finnist eðlilegra að finna aðrar lausnir en að neyða þau til að setja eignir sínar í langtímaleigu eða hreinlega selja þær.

Þau segja að gistingin sé það mikilvægur hluti af rekstrinum að ef hann fer þá þurfi þau að segja upp starfsfólki. Einnig segja þau í bréfi sínu að þau hafi búið á Ísafirði og rekið Massa þrif í 24 ár og sjái ekkert annað í stöðunni en að loka Massa þrifum og flytja, fari þetta líkt og málið lítur út í dag. Tala þau um að þeim finnist líka mjög óeðlilegt að þeim sé ekki gefinn meiri fyrirvari. Spyrja þau bæjaryfirvöld hvort þau hafi hugleitt hugsanlega skaðabótaskyldu.

Í bréfi sínu segja þau að það sé lágmark að þeirra mati að gefa þeim 5 til 6 ár til að undirbúa sig fyrir þetta tjón. Þau segjast vera með bókanir ár fram í tímann, til að mynda hafi þó bókanir þegar Fossavatnsgangan er, og spyrja hvort vísa eigi gestum þeirra til Bolungarvíkur eða Súðavíkur. Þau segjast hafa farið út í þennan rekstur í trausti þess að rekstrarleyfið yrði endurnýjað, ef það yrði á annað borð veitt.

Að lokum benda þau á að þau hafi séð lista yfir leyfishafa og sjái ekki betur en að margir séu að starfa án leyfis og hafi aldrei fengið leyfi. Því mun þessi nýja stefna ekki hafa mikil áhrif á þá aðila.

Aron Ingi
aron@bb.is