Markmið íþróttaskólans er að fá sem flesta í íþróttir

Skíðin bætast við íþróttaskólann þegar líður á vetur.

Íþróttaskóli HSV á Ísafirði hefur nú í haust sitt áttunda starfsár og hefur skólinn vaxið jafnt og þétt undanfarin ár segir Salome Elín Ingólfsdóttir, yfirþjálfari íþróttaskólans. Þátttakendur eru í fyrstu fjórum bekkjum grunnskóla og er afar góð þátttaka meðal barna á svæðinu.

„Það er eitt af markmiðum skólans, að fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir. Boðið er uppá æfingar í grunnþjálfun, boltaskóla og sundi, auk þess sem skíðaæfingar koma inn í æfingatöfluna yfir veturinn. Flestir geta því fundið hreyfingu við hæfi, sumir mæta á allar æfingar sem eru í boði fyrir þeirra hóp á meðan aðrir velja úr,“ segir Salome.

„Íþróttaskólinn á Ísafirði býður uppá æfingar í frístundahléi grunnskólabarna, þar sem börnin geta varið orku sinni á jákvæðan hátt við íþróttir og leik. Einnig eru æfingar eftir skóla og reynt að hafa sem mesta samfellu í degi barna á þessum aldri, í góðri samvinnu við grunnskólann og dægradvöl. Þessar fyrstu vikur skólaársins fara æfingar í grunnþjálfun og boltaskóla fram úti og skiptir því miklu máli að klæða sig eftir veðri. Mörkin eru dregin við rok og rigningu og færast æfingar inn þegar svo ber undir, því ómögulegt er að klára daginn rennandi blautur og kaldur. Við vonumst eftir frábæru veðri í haust því útiveran er öllum góð,“ segir þjálfarinn en æfingar eru þegar hafnar og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu HSV.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA