Lögbrot að vinna réttindalaus á vinnuvélum

Vinnueftirlitið mun halda vinnuvélanámskeið á Patreksfirði dagana 29. til 31. ágúst næstkomandi. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi sem gera það að verkum að þeir sem vinna á vinnuvélum án réttinda gerast brotlegir við lög. Blaðamaður BB heyrði í Eggerti Björgvinssyni, verkefnisstjóra hjá Vinnueftirlitinu, varðandi námskeiðið og þessi nýju lög. „Ef þú vinnur réttindalaus á vinnuvél þá er það lögbrot og öll slík mál verða kærð. En þetta er þungt í lögum því það er ekki sektarheimild í sjálfu sér í lögum okkar því þau eru svo gömul. Þannig að svona mál eru kærð til lögreglu og þetta fer til dómara, bæði fyrir undirrétti og svo Landsdóm eða Hæstarétt. Mér skilst að í þessu ferli þá eru þessar sektir frekar háar. Og þetta er mjög slæmt því sektin lendir á einstaklingi þrátt fyrir að sá einstaklingur sé að vinna fyrir eitthvað fyrirtæki, þannig eru lögin.“ segir Eggert.

Eggert segir að vinnueftirlitið hafi verið gagnrýnt hversu lítið það hefur sinnt Vestfjörðum í gegnum tíðina. „Við erum búin að vera að reyna að sinna Vestfjörðum, hefðum vilja sinna þeim betur. En við reyndum síðastliðinn vetur fjórum sinnum að mæta á Ísafjörð en þurftum frá að hverfa vegna veðurs. Vestfirðir eru sérstakir því þú hoppar ekki bara upp í bíl og skýst þangað, því miður. Svo loksins þegar við náðum að halda námskeiðið þá var mætingin dræm. Það áttu að vera tíu eða tólf Pólverjar og álíka margir Íslendingar en við enduðum með níu Íslendinga sem er náttúrulega ansi dræmt. Þess vegna erum við að reyna að auglýsa vel þetta námskeið sem við verðum með núna á Patreksfirði, til að sinna Suðurfjörðunum. Það eru dapurlegt að þurfa að fella niður námskeið sem eru ekki haldin það oft.“ segir Eggert.

Að sögn Eggerts er Vinnueftirlitið í góðu samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða varðandi þessi námskeið. Hann segir snúið að ná í fólk varðandi þetta, sérstaklega á Suðurfjörðunum og bendir á að hægt sé að hafa samband við stofnunina og einnig að skrá sig á biðlista fyrir námskeiðin. Bendir hann á heimasíðuna www.vinnueftirlit.is í þessu samhengi, en þar má sjá auglýsingar yfir námskeiðin.

Eggert segir að erfitt geti reynst að skipuleggja annað námskeið ef þau falla niður. „Við höfum verið gagnrýnd og það er réttnæmt að vissu leyti, það var dapurlegt að gera sig kláran fjórum sinnum í flug kvöldið áður til Ísafjarðar og svo er fluginu frestað. Starfið okkar er þannig að þegar svona fellur niður þá er ekki hægt að halda það daginn eftir því allt starfið er planað fram í tímann og námskeiðin eru reglulega hér og þar. Þetta er því snúið og mikilvægt er að námskeiðin séu nýtt vel.“ segir Eggert að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is