LISTIN AÐ GEFA BÖRNUM BRAUÐ

Eiríkur Örn Norðdahl. Mynd: Baldur Pan.

Þeir vita það sem reynt hafa að maður verður að éta mat. Annars fer illa. En það er ekki bara mikilvægt að éta mat, það er líka mjög gott. Fátt finnst mér persónulega betra en að naga kjötið utan af vel steiktum kjúklingi, nema ef vera skyldi að troða gúlann fullan af beikoni eða pólskum pylsum. En það finnst víst ekki öllum, eins óskiljanlegt og það annars er. Burtséð frá siðferðislegu ástæðunum fyrir því að borða eða borða ekki kjöt þá er kjötiðnaðurinn víst ekki sá fallegasti og óumdeilt að vistspor kjöts er nokkuð stærra en vistspor flestrar annarrar fæðu. Við – og þá meina ég við öll, þessir sjö milljarðar sem deila hér plássi – þurfum að draga úr kjötáti. Sérstaklega ef við viljum halda áfram að éta kjöt (vitur maður sagði einu sinni við mig að maður yrði að gæta sín að drekka ekki of mikið því ef maður drykki of mikið þyrfti maður að hætta að drekka fyrir fullt og allt og það væri ekkert gaman; hér gildir sem sagt sama lógík).

Alþýðuheimilið sér um sína

Sýnið mér örlitla biðlund, ég verð smástund að koma mér að efninu.

Skólamötuneytin eru hornsteinn jöfnuðar í hverju samfélagi. Þau ættu helst að vera ókeypis og alls ekki undir nokkrum kringumstæðum dýrari en sem nemur kostnaðinum við að elda hollan og góðan mat sjálfur. Við búum í samfélagi þar sem sum börn – vonandi ekki mörg, en sannarlega sum – fá ekki staðgóðan mat heima, vegna þess ýmist að foreldrar þeirra hafa ekki efni á staðgóðum mat, eru veik – eða, í örfáum tilvikum, einfaldlega fífl. Við, sem samfélag, berum ábyrgð á því að þessir kvillar og/eða ytri aðstæður bitni sem allra minnst á börnunum sjálfum, sem hafa ekkert til saka unnið. Þar gegna skólamötuneytin lykilhlutverki. Þau börn sem geta ekki treyst á vel útilátna máltíð heima, næringargóða og gómsæta, ættu að geta fengið hana í skólanum. Það munar nefnilega andskoti mikið um eina góða máltíð á dag þegar hinar bregðast.

Skólinn er auk þess í fyrirtaks stöðu til þess að kenna börnum að umgangast mat. Á minni tíð var ekkert mötuneyti í grunnskólanum og ég, einsog margir bekkjarfélagar mínir (þeir sem reyktu ekki einfaldlega úr sér hungrið), át innan úr hálfu fransbrauði í hádeginu og henti svo skorpunni. Í samfélagi þar sem fleiri og fleiri þjást af átröskunum, ofáti, lotugræðgi, þar sem fólk ýmist ýtir gætilega upp í sig hálfu gúrku- og chiafræjahrökkbrauði til þess að vekja ekki hinar ávölu línur eða treður sig út af rusli þar til það stendur svitnandi á blístri, í samfélagi þar sem gríðarleg matarsóun og sársaukafullir hungurverkir ganga hönd í hönd, þar er margt vitlausara hægt að kenna börnum en að umgangast mat.

Mötuneytið er ekki ómerkilegasta kennslustofa grunnskólans og börn ættu að hafa rétt til þess að éta – ekki bara möguleika, einsog hverjir aðrir viðskiptavinir.

Að vera með vesen

Tiktúrur manna þegar kemur að mataræði eru fleiri en svo að þær verði taldar upp í fljótheitum og fyrir þeim eru svo sannarlega misgóðar forsendur. Skal engan undra að fólk æri óstöðuga kokka með sérviskum sínum og sérþörfum. En það að sumir sem segjast vera með glútenóþol séu ekki með glútenóþol leysir ekki vandamál þeirra sem þjást af glútenóþoli; og fái sumir í magann telji þeir MSG í matnum verður víst bara að hafa það, hvað sem vísindin segja. Í grunninn getum við ekkert gert við slíku annað en að hlusta og leyfa einstaklingum að ráða þessu sjálfir. Skólamötuneyti ættu ekki að sýna matvendni meðvirkni en á sama tíma verða þau að bera virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti barna. Sá sem pínir mat ofan í börn kennir þeim bara að hata matinn.

Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að matvendni, óþol, ofnæmi og ýmsar siðferðislegar og trúarlegar ástæður fyrir fæðuvali eru ekki sami hluturinn og eiga ekki heima í sama boxinu. Grænmetisát er ekki matvendni og óþol er ekki siðferðisleg ákvörðun og maður venur fólk ekki af grænmetisáti, mjólkuróþoli eða Islam með því að „nenna ekki þessu veseni“. Og þótt maður eigi kannski einhvern tíma eftir að skipta um trú eða aðhyllast aðrar siðferðislegar eða pólitískar sannfæringar – og það sé jafnvel í myndinni að fæðuóþol láti undan – þá breytir það engu um afstöðu manns á meðan hún er afstaða manns.

Þegar skólinn skilur út undan

Og nú kem ég mér loksins að efninu, sem glögga var kannski farið að gruna.

Ég á dreng sem verður níu ára núna á sunnudaginn. Fyrir einsog einu misseri síðan tók hann upp á því hjá sjálfum sér, í félagi við besta vin sinn, að gerast grænmetisæta (ólíkt vininum étur hann reyndar fisk). Hann var búinn að vera að velta þessu fyrir sér um nokkra hríð og hafði gert nokkrar atlögur að þessum lífsstílsskiptum áður, án þess að þau héldu. Ákvörðunin er stór – honum fannst jafn gott að naga kjúklingabein og pabba sínum – og hún er tekin af siðferðislegum þunga. Þótt við deilum ekki sýn á þetta finnst mér mikilvægt að virða ákvörðunina – vilji ég skila honum sjálfstæðum út í heiminn neyðist ég til þess að taka mark á honum þegar ég veit að honum er alvara og gangast við því að hann sé annað og meira en framlenging á mínum eigin gildum. Um þetta vona ég að við yfirstjórn grunnskólans séum sammála.

Drengurinn, sem heitir Aram Nói, hefur hingað til notið góðs af starfsemi mötuneytis Grunnskólans á Ísafirði. Nú bregður svo við að vegna þess að hann borðar ekki kjöt – sem þarf víst að vera á boðstólum a.m.k. þrjá daga vikunnar – fær hann ekkert að borða. Við höfum reynt að áfrýja þeirri ákvörðun til allra mögulegra aðila innan skólans og nú fengið það skriflegt að grænmetisfæði verði einfaldlega ekki í boði í fyrirsjáanlegri framtíð – „vegna tímaskorts og kostnaðar“. Það er með öðrum orðum of mikið vesen.

Aram Nói er ekki eina grænmetisætan í skólanum, hann er ekki einu sinni sú eina í sínum árgangi – grænmetisætum fjölgar auk þess með veldisvexti, einsog sjá má á framboði verslana og veitingastaða – og það er langt í frá að Aram sé eina barnið sem mötuneytið þyrfti að taka tillit til ef börn teldust hafa rétt til þess að éta í skólanum. Á mánudaginn er til dæmis grísabuff – hvað gera múslimarnir þá? Fara þeir í Hamraborg vegna tímaskorts og kostnaðar? Í dag er skyr – fara þá krakkarnir með mjólkuróþol í bakaríið eftir kleinuhringjum?

Og grænmetisæturnar? Það er búið að leggja fram matseðil mötuneytisins út september og ekki einn einasta dag er boðið upp á annað en fisk eða kjöt. Ekki einn – það er einsog ekkert annað sé matur en kjöt og fiskur. Að vísu skiptir það ekki okkur máli enda ekki í boði að borga bara fyrir kjötlausar máltíðir. Maður er annað hvort „skráður í mötuneytið“ eða ekki.

Er furða að maður spyrji, fyrir hvern mötuneyti grunnskólans sé ef ekki fyrir börnin sem sækja þar nám?

Þetta er kannski flókið en þetta er andskotinn ekki svona flókið

Það þarf ákveðna tegund af kraftaverkamanni til þess að reka mötuneyti og ef mötuneytið er fyrir börn er eins gott að hann eða hún eða hán geti gengið á vatni.

Börn eru dásamleg en þau eru líka óþolandi (annað en foreldrar þeirra sem eru augljóslega bara óþolandi) – sérstaklega þegar þau koma mörg saman. Suma daga þegar maður skóflar af ósnertum diskum í ruslafötuna langar mann – sem vann einu sinni á leikskóla og kann ekkert af þeim kraftaverkum sem mötuneytisstarfsmenn framkvæma daglega – að henda öllum helvítis gemlingunum í hakkavélina. Það er skiljanlegt en óskynsamlegt, enda varðar það við lög, og ég lét það sem betur fer vera.

Það sem ég vildi sagt hafa: Ég veit að þetta er erfitt og ég ber afar mikla virðingu fyrir því fólki sem leggur þetta á sig. En það verður samt ekki hjá því litið að þetta er starfið – að sinna þessum óþolandi kvikindum og sjá til þess að þau éti og læri helst eitthvað í leiðinni um bragðundur eldhússins, borðsiði og næringu. Þetta er bara starfið.

Það er ekki víst að skólamötuneyti geti þjónað öllum – það er lína sem verður ekki stigið yfir í þessu einsog öðru. Til dæmis mannát eða mannaskíts- – að ég tali nú ekki um sælgætistryllinginn. En skólamötuneyti ætti samt að gera sitt allra ítrasta til þess að þjóna sem flestum. Í því er áskorunin fólgin. Það þarf að koma til móts við þarfir nemenda og þar þurfa skólastjórnendur, bæjaryfirvöld og hershöfðinginn í mötuneytinu að taka höndum saman – þetta er ekki eins manns verk.

Ég hef bæði starfað í mötuneyti og unnið sem kokkur á leikskóla. Ég gafst upp enda get ég ekki gengið á vatni og kann engin kraftaverk. Ég kann ekki einu sinni spilagaldra. En ég sé um alla matseld á okkar heimili, þar sem er étið bæði kjöt og kjötlaust, og hef ágætis hugmynd um hversu miklar tilfæringar þarf til þess að láta þetta ganga upp, þótt á litlum skala sé. Og ég hef enga trú á því að það sé erfiðara að koma til móts við grænmetisætur en ofnæmissjúklinga eða þá sem borða ekki tiltekna fæðu af trúarlegum ástæðum. Gulrætur eru ekki dýrari en slátur, og kjúklingabaunir eru ekki dýrari en kjúklingur; grænmetisréttir eru heldur ekki flóknari eða tímafrekari í matreiðslu. Þurfi maður að gera margar pönnur af lasagna er langt undir lágmarksveseni að sjá til þess að á einni pönnunni sé ekki kjöt – ekki einu sinni grís og kannski eggjalausar pastaplötur líka og laktósafrí Örnumjólk og ná þannig að slá nokkrar flugur í einu höggi og þjóna þannig öllum skjólstæðingum sínum frekar en bara sumum. Þetta er bara spurning um starfshætti, skipulag og afstöðu til skjólstæðinga sinna.

***

Ég vil að lokum ítreka þá virðingu sem ég ber fyrir þeim sem velja sér þann starfa að koma mat í börn. En mér gremst þetta ástand. Við foreldrar gerðum ekki slíkar kröfur til ykkar ef þetta væri ekki mikilvægt. Og ef þetta er í raun og veru spurning um fokdýrar baunir sem starfsfólkið kann ekki að hantera verður einfaldlega að setja þá kröfu á bæjaryfirvöld að þau bregðist við og bæti þessum fáu krónum sem vantar í púkkið – það er aldrei að vita nema að börnum skráðum í mötuneytið fjölgi fyrir vikið. Sem ætti jú að vera markmiðið.

Eiríkur Örn Norðdahl

PS. Ég vil biðja ömmu mína heitna afsökunar á að nota orðið „éta“ á þennan hátt, ég veit maður segir „borða“, en það er bara erfitt að gæta orða sinna þegar manni er mikið niðri fyrir.

Höfundur er áhugamaður um friðsamlega sambúð grænmetisæta og kjötæta.

DEILA