Landnámsbær fundinn á Selströnd í Kaldrananeshreppi

Hveravík á Ströndum þar sem málþingið verður haldið 18. ágúst.

Fyrir nokkrum árum síðan urðu íbúar á bænum Bakkagerði á Selströnd varir við bein sem stóðu út úr sjávarbakka sem hafði brotnað niður vegna ágangs sjávar. Beinum sem hrundu úr bakkanum var haldið til haga, og var haft samband við Albínu Huld Pálsdóttur dýrabeinafornleifafræðing. Sýndi sig að þar var um litríkt samansafn af beinum að ræða úr sjávardýrum, fuglum og fiskum í viðbót við svína- og geitarbein svo dæmi séu nefnd. Var því haft samband við Minjastofnun Íslands, og tóku starfsmenn stofnunarinnar bein neðarlega úr haugnum og sendu til aldursgreiningar. Sýndi sú greining fram á að um bein frá tímabilinu 850–910 eftir Krist var að ræða.

Í dag hefur alþjóðlegt teymi fornleifafræðinga tekið málið í sínar hendur, og munu þeir rannsaka nánar þessar mannvistarleifar í Sandvík á Ströndum nú í ágúst. Munu þeir kanna umfang ruslahaugsins og reyna að finna útlínur bæjarins og annarra bygginga. Að afloknum uppgreftri mun fara fram málþing í hinni nærliggjandi Hveravík á Ströndum, þar sem niðurstöður rannsóknarinnar verða settar í samhengi við strandmenningu landa við Norður-Atlantshafið bæði í austri og vestri.

Málþingið hefst 17. ágúst kl. 18 á sögurölti um landnámsbæinn í Sandvík, Bæ á Selströnd. Daginn eftir, eða laugardaginn 18. ágúst, hefst hið eiginlega málþing klukkan 11 en þá ávarpa sveitarstjóri Kaldrananeshrepps málþingið ásamt starfsmanni Fjórðungssambands Vestfjarða. Stuttu eftir talar Howell Roberts um torf, grjót og landnám og dagskráin er síðan hlaðin áhugaverðum erindum fram til klukkan 16:30 þann dag.

Uppdráttur af tóftum í Sandvík.

Það sérstaka við landnámsbæinn í Sandvík er að engum sögnum fer af búsetu manna í víkinni, hvorki í Landnámabók né öðrum norrænum textum, né finnast nokkrar sögusagnir af bæ á þessum slóðum svo langt aftur í aldir. Næsti landnámsmaður við Sandvík hét Grímur Ingjaldsson og er sagður hafa búið í Grímsey á Steingrímsfirði, en hann átti rætur að rekja til Haddingjadals, nú Hallingdal, í Mið-Noregi, og er eini landnámsmaðurinn tilgreindur frá þeim slóðum. Allar nánari upplýsingar um þetta merkilega verkefni veitir dr.art. Bergsveinn Birgisson í síma +47 47647769

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA