Hinsegin Ísafjarðarbær

Hinsegin dagar standa nú yfir í Reykjavík og víða um land og gleðin nær hámarki í höfuðborginni á morgun þegar Gleðigangan streymir um stræti og torg.

„Í göngunni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, transfólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín,“ eins og segir á heimasíðu Hinsegin daga.

Birna Hrönn Björnsdóttir og Þorvaldur Kristinsson skrifa líka þar að: „Það er enginn tilviljun að ganga hinsegin daga kennir sig við gleði. Hún er staðfesting á stolti sem fæstum okkar reyndist auðfengið og auðfundið. Með gleðigöngunni fögnum við sigrum sem unnist hafa í mannréttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og látum í ljós þakklæti til ættingja okkar og vina fyrir að koma með á bátinn og standa með okkur af heilum hug. Með sýnileikanum styrkjum við líka það fólk sem vildi svo gjarnan brjótast út úr skápnum en sér ennþá ástæðu til að hika.“


Ísafjarðarbær hefur lýst yfir stuðningi sínum við hinsegin fólk og baráttu þeirra með því skreyta merki sveitarfélagsins regnabogalitunum, sem eru táknið fyrir baráttu hinsegin fólks. Regnboginn er líka tákn fjölbreytileikans og sveitarfélagið hefur flaggað regnbogafánum fyrir utan Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði. Það er gleðilegt þegar sveitarfélög lýsa yfir stuðningi sínum á svo opinberan hátt og vonandi að sem flestir taki bæjarfélagið sér til fyrirmyndar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA