Það eru líklega flestir sem kannast við Hesteyri. Eyðiþorp í Jökulfjörðum. Fólkið sem bjó þar, þá um 30 manns, tóku sig saman um að flytja öll í burtu árið 1952. Það er ekki hægt að komast akandi á Hesteyri, bara fótgangandi eða með bát. Ég sjálf er 24 ára gömul, þjóðfræðingur og yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum á Ströndum. Ég er frá Kirkjubóli rétt sunnan við Hólmavík og fór í fyrsta skipti á Hesteyri síðasta mánudag með hópi fólks sem vinnur á Þróunarsetrinu á Hólmavík, í ferðinni voru 16 manns og einn hundur. Mig hefur lengi langað að fara á Hesteyri. Bæði því ég hef mikinn áhuga á menningu og náttúru, sem er einstaklega rík á svæðinu, og svo hafði ég lesið draugasöguna Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttir þegar hún kom út. Svo seinna horft á myndina með rosalegustu gæsahúð fyrr og síðar.
Við lögðum af stað frá Ströndum eldsnemma um morguninn, ég vaknaði klukkan 6 til að fara í sturtu og taka mig til. Það var hörmulegt. Ég verð seint kölluð morgun manneskja. Man ekki einu sinni hvenær ég vaknaði síðast svona snemma. Ég, mamma og pabbi fórum saman á bíl sem var fínt, ég gat þá hrotið aftur í megnið af leiðinni á Ísafjörð. Þegar við komum þangað fórum við beint í Gamla bakaríið sem er algjört skyldustopp á Ísafirði. Ég fékk mér samloku og kleinuhring. Ég elska kleinuhringi. Við höfðum ennþá svolítinn tíma svo við kíktum á hversdagssafnið í Skóbúðinni. Ótrúlega skemmtilegt og persónulegt safn sem ég mæli með að allir skoði. Svo keyrðum við til Bolungarvíkur þar sem við tókum bát út á Hesteyri.
Það var öldugangur á leiðinni. Ég stóð úti í bátnum og öldurnar frussuðust yfir okkur. Ég var orðin hundblaut löngu áður en við komum á áfangastað. Ég hef alltaf elskað sjóinn. Mér finnst hann eitthvað svo heillandi, það er svo mikill kraftur í honum. Skipstjórinn sagði okkur að bryggjan hefði skemmst í óveðri nóttina áður og við þyrftum að fara með gúmmíbát í land. Alveg eins og í myndinni Ég man þig. Ég hugsaði með mér í smá stund hvað það yrði spennandi ef við myndum festast á Hesteyri, verða veðurteppt og komast ekki til baka, kljást við drauginn. Ég ætlaði að senda snapchat af bryggjunni þegar við komum en það er ekki gsm-samband á Hesteyri, spúkí.
Hesteyri er ótrúlega fallegur staður. Náttúran var í blóma, við sáum skeljar í fjörunni, hvönnina, burknana, brönugrasið, fossana, fuglana og seli stökkva og leika sér í sjónum. Þetta var æðislegt. Það var reyndar rigning en það var allt í lagi. Ég var hvort sem er blaut eftir að hafa þrjóskast við að standa úti í bátnum. Við byrjuðum á að ganga að kirkjugarðinum og svo að gömlu verksmiðjunni á Stekkeyri sem er að mestu leyti hrunin. Það sést líka að það hefur farið snjóflóð yfir hluta af byggingunum. Skorsteinninn stendur þó ennþá með gati sem pabbi segir að sé eftir fallbyssukúlu, Landhelgisgæslan hafi skotið á hann. Ég veit ekki hvort það er satt, hann á það til að gleyma að segja að hann hafi verið að grínast eftir að hann segir sögur, en ef það er satt er þetta mjög góð saga.
Meðan við gengum um Hesteyri sá ég fyrir mér líf fólksins sem bjó hérna einu sinni og allar sögurnar sem hafa gerst hér. Það voru tveir aðrir hópar á svæðinu á sama tíma og við. Húsin voru ekki jafn draugaleg og í myndinni, þau voru öll nýmáluð og greinilega vel haldið við, en draugahúsið í myndinni heitir líka Bakki og stendur í raun og veru í Grindavík. Við fengum okkur svo kaffi og pönnukökur í gamla læknishúsinu sem leikur stórt hlutverk í kvikmyndinni. Þar spiluðu gestgjafarnir Hrólfur og Íris fyrir okkur á langspil og harmonikku. Við spiluðum svo líka og sungum, í dúndur stuði.
Þrátt fyrir að enginn hafi heilsársbúsetu á Hesteyri iðaði þar allt af lífi. Á þessum degi var eyðiþorp rangnefni. Ég velti því fyrir mér hvernig hafi umræðan hafi verið á hreppsnefndarfundinum þar sem var ákveðið að flytja í burtu og skilja þorpið eftir. Pakka niður eigum sínum, minningum og sögum og fara í burtu. Það hlýtur að hafa verið erfitt, það var engin leið fyrir þetta fólk að vita hvað framtíðin bæri í skauti sér og fáa hefur grunað að þarna yrði líf og fjör á sumrin. Ég bý rétt fyrir utan Hólmavík og þorpin og sveitirnar á Ströndum eru í varnarbaráttu, það eru of margir að flytja í burtu. Sem er synd því það er frábært að búa hérna. Ég ætla þess vegna alls ekki að stinga upp á því að við höldum íbúafund og flytjum öll frá Ströndum, en hvað er til ráða? Á Hesteyri kemur núna fullt af fólki til að dást að náttúrunni, fara í gönguferðir og upplifa menningu og sögu staðarins. Þegar kemur að uppbyggingu á Ströndum eru margir möguleikar í stöðunni, það er aldrei bara ein lausn. Við þurfum að skoða alla kostina vel og vandlega og velja svo þær leiðir sem eru bestar, ekki bara akkúrat núna heldur líka til framtíðar. Langbest væri svo ef hægt væri að finna þessar leiðir í sátt og samlyndi og allir leggist á eitt.
Við tókum bátinn til baka, ölduhæðin var 4 metrar, teiknimyndin Frozen var í sjónvarpinu, sem lýsti tilfinningum mínum á þessari stundu mjög vel þar sem ég var sjálf hálffrosin af kulda. Áður en við héldum aftur heim á Strandir fengum við okkur svo að borða á Tjöruhúsinu sem er líka ævintýri út af fyrir sig (eins og hefur kannski sést finnst mér sérstaklega gaman að borða). Mér rétt tókst svo að skríða inn um hurðina heima á Kirkjubóli áður en ég steinsofnaði í sófanum í öllum fötunum og dreymdi um lífið á Hesteyri, fjölskyldurnar, hvalveiðar, snjóflóð, búskap, bátsferðir og drauga.
Dagrún
dagrun@bb.is