Haustfagnaður Skrímslasetursins

Gestir dönsuðu fram á rauða nótt. Mynd: Skrímslasetrið.

Það var boðið upp á haustfögnuð í Skrímslasetrinu á Bíldudal síðastliðinn laugardag. Tilefnið var að fagna góðu sumri en þau Gunnar Smári Jóhannesson og Sarah Maria Yasdani hafa staðið vaktina á Skrímsasetrinu með mikilli prýði síðan í byrjun maí. Það þótti því upplagt að halda góða rýmingarsölu með glæsilegu hlaðborði þar sem Skrímslasetrið lokar þann 15. september.

Staðarhaldarar lögðu sig fram um að elda allt sem til var og allt átti að seljast að þeirra sögn. Þetta framtak var í takti við að hafa enga matarsóun í samfélaginu. Sarah hefur fengið mikið hrós fyrir eldamennsku sína í sumar og þykja vöfflurnar hennar ómótstæðilegar svo dæmi sé tekið.

Hlaðborðið var glæsilegt. Mynd: Skrímslasetrið.

Dagskráin var vegleg og hófst á fyrrnefndu hlaðborði sem stóð yfir frá klukkan 17:00 til 20:00. Eftir það, eða klukkan 21:00 var komið að einleiknum hans Gunnars sem nefnist “FIMMÞÚSUNDKALL”. Sýndi Gunnar þennan einleik á Act Alone hátíðinni á dögunum við góðar undirtektir. Að þessu sinni var verkið sett upp í Baldurshaga á Bíldudal. Gunnar mun snúa sér að námi sínu í leiklist við Listaháskóla Íslands og af því tilefni vildi hann setja upp sýninguna

Eftir sýninguna í Baldurshaga var aftur haldið í Skrímslasetrið þar sem gestir voru spurðir spjörunum úr af Gunnari, en hann er þekktur á þessum slóðum sem góður spyrill. Þemað í pub-quizinu var “Allt eða Ekkert” og skemmtu gestir sér konunglega og mikið var hlegið vegna framgangs Gunnars sem fór hreinlega á kostum að sögn viðstaddra.

Að lokinni spurningakeppninni tók við heljarinnar partý og var dansað fram í dagsljós sunnudagsins. Það er ljóst að þeirra Gunnars og Söruh verður sárt saknað og vonandi láta þau sjá sig aftur hér fyrir vestan næsta vor, líkt og lóan.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA