Gullrillur skelltu sér á fjallahjól á Akureyri

Það eru ekki margir sem eru meiri töffarar en Gullrillurnar á Ísafirði. Þær eru óhræddar við að prófa hverskonar íþróttir sem öðrum gæti hugsanlega óað við að líta í áttina að. Núna síðustu daga hafa fjórar þeirra, þær Arna Lára Jónsdóttir, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Þórdís Sif Sigurðardóttir og Heiða Aðalbjargar skemmt sér á fjallahjólum á Akureyri. BB heyrði í þeim á heimleiðinni og lék forvitni á að vita hvernig hefði verið.

„Við vorum bara að hjóla allskonar leiðir í kringum Akureyri og prófa hjólabrautina þeirra,“ segir Arna Lára. Akureyringar nota eina af skíðalyftunum sínum fyrir hjólafólk á sumrin en lyftan var því miður lokuð svo Gullrillurnar gátu ekki prófað hana. „En við prófuðum brautina þeirra,“ heldur Arna Lára áfram, „Og það var mjög skemmtilegt. Blautt en bara gaman. Mér finnst brautin okkar fyrir vestan vera erfiðari, hún er tæknilegri en það er mjög gott að vera búin að vera í henni og koma svo norður. En það er búið að gera meira fyrir norðan og skipuleggja meira. Byggja fleiri brýr og allskonar og það er gaman að vera þarna því það er búið að hanna brautirnar vel og teikna þær inn í skipulag. Það er eitthvað sem við getum lært af.“

Gullrillur skelltu sér í samhjól með fjallahjólakonum á Akureyri. Mynd: Arna Lára Jónsdóttir.

Gullrillurnar skelltu sér í samhjól á Akureyri í gærkvöld og voru þrettán sem hjóluðu saman. „Það er þéttur hópur af stelpum þarna sem hjólar saman einu sinni í viku. Það væri gaman að gera þetta heima og við eigum það kannski eftir. Þetta er alltaf að verða stærri og stærri hópur sem er í þessum fjallahjólum og ég veit ekki hvað við erum búnar að mæta mörgum bílum með hjól á toppnum,“ segir Arna Lára en þær voru ekki komnar lengra en í Húnavatnssýslu þegar BB sló á þráðinn, svo líklega áttu þær eftir að mæta þó nokkrum hjólum á leiðinni vestur.

Gullrillurnar fjórar sem skelltu sér á Akureyri eru á fulldempuðum hjólum sem Arna Lára segir að sé mjög þægilegt því þau gefi vel eftir þegar hjólað er. Þær eru einnig klæddar brynjum, með hanska, hnéhlífar og góða hjálma. „Við reynum að brynja okkur vel,“ segir hún. „Við lendum auðvitað í smá pústrum og þá skiptir miklu máli að vera vel búinn og með góðan hjálm. Það veitir manni líka meira sjálfstraust.“

Ólöf Dómhildur var svo óheppin að brjóta skiptingu á hjólinu sínu í gær svo það verður smá bið á því að hún þjóti upp og niður fjöll fyrir vestan. Gullrillurnar voru þó spenntar að komast heim í brautina á Ísafirði og eru að skoða hvaða fjallahjólaviðburði þær muni sækja næst.

Sæbjörg
bb@bb.is