„Guð minn góður, minnstu nú ekki á það helvíti!”

Það er ekki mikið pláss til að hnerra á þessum vegi. Mynd: Halldór Holt.

Starfsmaður fyrirtækisins Akstur og köfun setti inn mynd á Facebook á dögunum sem vakið hefur mikla athygli og hörð viðbrögð. Myndin er tekin í vestanverðum Þorskafirði á Múlahlíðinni rétt innan við Múla. Kaflinn frá Þorskafjarðarbotni og út að Hjallahálsi er með einbreiðri klæðningu og því hættulegri en aðrir slíkir þar sem margir ökumenn virðast telja veginn tvíbreiðan. Gísli Ásgeirsson, eigandi Aksturs og köfun segir að ástandið sé alveg óþolandi. „Þegar við komum hingað vestur þá keyrum við á einbreiðum vegi, þetta er ekki flókið. Það eru engir kantar eða neitt, það má ekki hnerra undir stýri þá ertu kominn útaf. Við erum að borga sömu gjöld, þungaskatt, tryggingar og annað. Ég borgaði 10 milljónir í þungaskatt fyrir síðasta tímabil, frá desember til júní.“ segir Gísli.

Þessir vegir bjóða hættunni heim! Mynd: Halldór Holt.

Gísli segist vera langþreyttur á ástandi varðandi vegi víða. Hann segist vera búinn að kaupa bíla í Noregi og hægt sé að keyra þar í grenjandi rigningu og ógeði og það sér ekki á þeim, þeir eru eins og nýjir þegar komið er til Danmerkur. Svo þegar komið er að Mývatni þá eru þeir orðnir kolsvartir af tjöru og ógeði. Hann segist verja óteljandi stundum í að þrífa bílana sína.

Að sögn Gísla eru vegirnir á sunnanverðum Vestfjörðum stórhættulegir en blessunarlega hafi þeir sloppið við slys hingað til. „Maður þarf bara að stoppa þegar maður mætir túristum. Þú vilt ekkert keyra á þau, þannig að maður er skíthræddur í umferðinni og maður sér margt sem aðrir sjá ekki. Þetta er einbreitt og útlendingarnir fara ekki út í kantinn, þeir stoppa bara frekar. Við höfum blessunarlega ennþá sloppið við slys.“ segir Gísli.

Aðspurður segir Gísli að það sé lítið um svör frá ráðamönnum þjóðarinnar varðandi þessi mál. „Ég held að þeir séu aðallega að spá í að malbika í Reykjavík. Þetta eru aumingjar, þessir menn hafa aldrei verið í sveit. Það þarf auðsjáanlega að vekja þetta fólk. Ég er með mann í vinnu sem hefur keyrt síðan 1970, vegirnir hér eru nákvæmlega eins í dag og hann var þá.“ segir Gísli.

En hvað finnst Gísla um Teigskógarmálið? „Guð minn góður, minnstu nú ekki á það helvíti. Þeir gera sig að fíflum aftur og aftur þetta Reykjavíkurlið í því máli!“ segir Gísli að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA