Geturðu synt eins langt og kýr?

Ragnheiður Valgarðsdóttir, formaður sjósundsfélags Reykjavíkur hefur verið ráðgjafi Sæunnarnefndar.

Það verður líf í tuskunum í Önundarfirði á laugardaginn þegar hópur fólks, víðsvegar að af landinu, reynir sig við afrek Sæunnar en það er að synda þvert yfir Önundarfjörð. Þetta er þó alls ekki á jafnréttisgrundvelli því Sæunn var hvorki í sundgalla eða með froskalappir heldur klaufir á fjórum fótum sem erfitt hefur verið að kreppa, beygja og svo fast saman og alls ekki gat hún gripið til skriðsunds eða flugsunds. Ekki er auðvelt að gera sér grein fyrir hvaðan þeir ofurkraftar komu sem gerðu svo stórri og stirðri skepnu sem kýrin er mögulegt að taka undir sig stökk yfir fiskiskör og synda svo rúma 2 kílómetra í úfnum októbersjó, en þetta gerði hún, svikalaust. Með halann upp úr sjónum synti hún sér til lífs, frá ósanngjörnu og óbilgjörnu landbúnaðarkerfi sem dæmdi hennar hlutverki lokið til nýrrar tilveru í hlýju fjósi og faðmi Siggu og Steina í Dal. Kannski voru það hugsunarlaus viðbrögð en kannski voru eðlislæg viðbrögð skepnu sem vildi vernda og bjarga afkvæminu sem hún bar svo á sjómannadaginn vorið eftir.

Það eru 10 sundgarpar sem ætla að þreyta sundið en björgunarsveitir og kajakræðarar munu fylgja sundfólkinu. Rásmarkið er við Flateyrarodda og stefnan tekin í fjöruna við Valþjófsdal þar sem Sæunn kom á land í október 1987. Í fjörunni er Sæunnarhaugur en ekki þótti við hæfi að flytja Sæunni aftur í sláturhús, hún var felld í fjörunni og heygð.
Sundið hefst kl. 13:00 og verður án efa skemmtilegt að fylgjast með hraustum sundgörpum synda yfir fjörðinn, ekki með halann upp úr sjónum eins og Sæunn gerði, heldur með litríkar sundhettur.


Nálgast má upplýsingar um Sæunnarsundið hér.
Kaffihúsin og veitingastaðir Önundarfjarðar verða opnir og klárir með allskonar góðgæti alla helgina og sundinu verður slúttað með hátíðarkvöldverði á Vagninum.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA