Framtíðarskipulag skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar

Á fundi Umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar 28. ágúst var lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar og Marzellíusar Sveinbjörnssonar sem dagsett er 27. júní varðandi hönnun útivistarsvæðis í Skutulsfirði. Leggja þeir til að hafist verði handa við skipulagningu og hönnun útvistarsvæða með áherslu á Tungudal, Seljalandsdal og heiðarnar þar fyrir ofan. Bæjarráð tók erindið fyrir á 1022. fundi sínum 2. júlí síðastliðinn og vísaði verkefninu til umhverfis- og framkvæmdanefndar þar sem það verður skipulagt og kostnaðarmetið.

Í erindi þeirra Daníels og Marzellíusar segir, að skipulag og hönnun á Tunguskógi, skíðasvæðinu á Seljalandsdal og Tungudal hafi lengi verið í umræðunni. Margir nýti sér þetta svæði og ýmsar hugmyndir eru uppi um málið. Segja þeir að notkunin sé fjölbreytt og má meðal annars nefna skógrækt og golf í Tungudal og skíði á Seljalandsdal og Tungudal. Benda þeir á að þar séu líka hverskonar göngustígar, hlaupaleiðir, tjaldstæði og hjólreiðastígar.

Að mati þeirra er mikilvægt að skipuleggja þessi svæði með það í huga að þau samræmist notkun og aðalskipulagi. Af því tilefni leggja þeir til að hafist verði að skipuleggja og hanna fyrrnefnd útvistarsvæði. Segja þeir að markmiðið verkefnisins verði að búa til mynd af firðinum þar sem búið væri að setja niður þessa framtíðarnotkun. Þannig væri svo hægt að fara í ákveðin verkefni og klára þau frá eftir því sem efni og aðstæður leyfa.

Að þeirra mati fælist í verkefninu að:

Kortleggja stígakerfi bæjarins og gera tillögur að samhangandi kerfi innan fjarðarins og yfir í næstu firði. Er þar horft til hverskonar notkunar stíganna, hvort sem það er innan þéttbýlis eða til fjalla.

Skipuleggja notkun Tungudals en Tungudalur býður upp á mikla möguleika og þar er í dag margskonar nýting. Í umræddu skipulagi verði horft til þess að Tungudalur gæti orðið eins konar fólkvangur. Þar sem íbúar og ferðamann njóta nátúrunnar. Tjaldi, safnist saman og leiki sér. Svæði eins og Kjarnaskógur á Akureyri gæti verið dæmi um fyrirmynd.

Gerðar verði tillögur að framtíðarskipulagi skíðasvæðis. Skoðaðir verði möguleikar til að til að samnýta göngu- og svigskíðasvæði betur, svæðið verði gert aðgengilegra og aðgerðir til að fjölga opnunardögum verðið skoðaðar. Jafnframt verði haft í huga hvernig megi nýta svæðið betur allt árið með gerð göngu- og hjólaleiða.

Að lokum er lagt til að í verkefnið verði fengnir til þess bærir ráðgjafar og íbúar hafi mikla aðkomu að þessu verkefni sem gæti verið hluti af endurskoðun aðalskipulags.

Aron Ingi
aron@bb.is