Forréttindi að hafa náttúruna við dyrastafinn

Eins og kom fram fyrr í dag hér á BB þá hefur meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ákveðið að ráða Guðmund Gunnarsson sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Guðmundur sagði blaðamanni BB að ráðningin sé svolítið óraunveruleg ennþá. Stutt sé síðan þetta varð áþreifanlegt og segist hann iða í skinninu við að taka til starfa. Hann er spenntur að flytja heim aftur og segir þetta frábært tækifæri til að taka þátt í öllu því sem sé í gangi fyrir vestan.

„Ísfirðingar myndu segja að ég væri Bolvíkingur enda er ég alinn upp þar og foreldrar mínir búa þar. En eins og svo margir fyrir vestan þá var ég oft á Ísafirði. Amma mín og afi eru Ísfirðingar og mamma er þaðan líka og ég var öll sumar alltaf innfrá. Þannig að ég hef sterkar tilfinningar til beggja bæja. Konan mín er frá Ísafirði og ég lít á þetta frekar sem einhverskonar systkinakærleik frekar en hrepparíg.“ segir Guðmundur.

Það er mjög krefjandi að taka við bæjarstjórastöðunni að mati Guðmundar og mikil áskorun fyrir hann og fjölskylduna, áskorun sem kitlar þau líka. „Maður segir það alltaf þegar maður fer vestur að það væri voðalega þægilegt að geta búið þar því þar eru ræturnar sem toga í mann. Umræðuefnið við fólk sem maður þekkir og er þaðan er oft þannig að verið er að gantast með hvenær það eigi að flytja heim aftur. Það er meðbyr í gangi og hefur verið síðustu ár og fólk finnur að nú er lag og það er stór þáttur í að við tökum þessa ákvörðun.“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að þessi meðbyr hafi spilað stórt hlutverk í ákvörðun þeirra að flytjast vestur. „Svæðið býður upp á mikil gæði og það eru forréttindi að hafa náttúruna við dyrastafinn hjá sér. Þetta er ótrúlegt umhverfi fyrir börn að alast upp við, eins og maður þekkir sjálfur og mjög spennandi að fá að taka þátt í að tala fyrir þessum kostum, þessari gullkistu og gæðum sem þarna eru til staðar.“ segir Guðmundur.

Aðspurður segir Guðmundur að verkefnin séu ærin og að hann muni setjast í stólinn auðmjúkur og ætli ekki að þykjast kunna allt og vita allt. „Starfsfólk bæjarins er mjög fært sem og kjörnir fulltrúar, sem eru örugglega miklu betur inni í málunum en ég. Ég kem vestur til að hlusta og læra af því góða fólki sem þekkir alla hnúta vel. En þetta snýst fyrst og fremst um að gera gott enn betur og halda áfram að byggja upp og koma þessu bæjarfélagi enn frekar á kortið sem vænlegum valkosti fyrir bæði ungt og eldra fólk með framtíðarbúsetu í huga. Það hefur tekist einstaklega vel til hingað til og það er að verða til mjög fjölbreytt og fallegt samfélag fyrir vestan. Við höldum áfram á þeirri braut og bætum bara í.“ segir Guðmundur

Guðmundur mun hefja störf í september næstkomandi og segir að hann hlakki mikið til að vinna með frábæru starfsfólki, fyrir frábæra íbúa sveitarfélagsins.

Aron Ingi
aron@bb.is