Finnst ekki laxalús í þessum kvíum

Eldisstöð AkvaFuture AS í Andalsvogi í sveitarfélaginu Vevelstad i Noregi

Fiskeldið verður alltaf umdeilt en hvað sem fólki finnst um það þá er ekki hægt að neita því að töluverð uppbygging fylgir því í sjávarþorpunum. Það er þó heldur ekki hægt að neita því að fiskeldinu fylgja ýmis vandamál, svo sem hættan á slysasleppingum, laxalús og úrgangur sem stundum safnast upp á sjávarbotninum. Það er því góðra gjalda vert að reyna að finna allar leiðir til að fara bil beggja og stuðla að uppbyggingu en huga að umhverfinu um leið. BB hitti Rögnvald Guðmundsson, framkvæmdastjóra AkvaFuture í Noregi og átti við hann afar áhugavert samtal um nýja tækni við fiskeldi. Rögnvaldur er Bolvíkingur og var á ferðalagi um Vestfirði til að kynna þessa nýju tækni, sem felst helst í gríðarlega sterkum fiskeldispokum sem koma í staðinn fyrir nótirnar undir kvíunum.
AkvaFuture er dótturfyrirtæki AkvaFuture AS en það er norskt fiskeldisfyrirtæki sem byggir á tækni sem stofnandi fyrirtækisins fann upp. Tæknin snýst um lokað fiskeldiskerfi, þar sem lokaður poki úr trefjadúk er heill undir kvínni. Neðst á pokanum er ventill, þangað safnast allur úrgangur úr kvínni og því er síðan dælt upp á land. Ferlið stoppar ekki þar því úrgangurinn hefur verið unninn áfram og notaður síðan í biodiesel sem knýr strætisvagnana í Þrándheimi.

Kvíarnar eru mikil mannvirki en það eru steypuhringir í kringum næturnar og hver steypuhringur er átta tonn að þyngd. En þetta virkar í raun eins og flotbryggjur. „Við erum staðsett í Brönnesund í Noregi og erum með þrjú eldissvæði. Eitt fyrir seyðin og þegar þau eru orðin eitt kíló að þyngd þá eru þau flutt á hin eldissvæðin,“ segir Rögnvaldur.
„Við getum ekki verið að henda skít í sjóinn endalaust,“ segir hann ennfremur. „Fólk vill byggja upp fiskeldi til framtíðar en það vantar stefnumótun varðandi umhverfismál og annað slíkt hér á landi þegar kemur að fiskeldi.“

Rögnvaldur bendir jafnframt á að þegar kemur að matvælaframleiðslu og próteinframleiðslu þá er notað 1,1 kg af fóðri til að framleiða 1 kg af próteini í laxeldi en til samanburðar þurfi kýr 8 kg af fóðri til að framleiða 1 kg af próteini.

„Villti laxastofninn hér telur um 70-80 þúsund fiska. Ef við förum upp í björtustu vonir varðandi laxeldi hér á Íslandi þá eru það 120 þúsund tonn. Þá erum við að tala um 24 milljónir einstaklinga sem bætast við laxatöluna. Laxalúsin er fylgifiskur laxins og vill vera á honum. Og ef hún fær tugi einstaklinga til að leika sér á þá vex hún mjög mikið. Ég hef oft tekið samlíkinguna með hárlúsina. Það finnst kannski ekki lús á örfáum kennurum en þegar skólinn byrjar á haustin þá springur lúsin út. Og sama er í fiskeldinu. Það er líka mikill úrgangur sem fylgir eldinu og ef við getum náð honum upp, og ég tala nú ekki um ef við getum gert eitthvað úr honum, en það er til dæmis hægt að nota hann í biodiesel, þá er allt að vinna. Fyrirtækið sem ég starfa hjá er líka að þróa aðferðir til að ná salti úr úrgangnum og ef það tekst þá er hægt að búa til úrvalsáburð sem er hægt að nota á hvað sem er.“

Þetta hljómar vissulega allt mjög vel hjá Rögnvaldi svo blaðamanni BB lék hugur á að vita kostnaðinn við framkvæmdir af þessu tagi. Rögnvaldur svaraði því til að þetta væri mun dýrara en hefðbundnar nætur og kvíar en: „Við erum samkeppnishæfir við hefðbundnar nætur það er enginn lús sem kemst í þessar kvíar, svo við þurfum ekki að meðhöndla fiskinn gegn lús.“

„Lúsameðhöndlun er stærsta vandamálið í fiskeldi í Noregi. Það er líka vaxandi vandamál hér á landi og kostnaðurinn er mikill. Mestur er fóðurkostnaðurinn í fiskeldi en þar á eftir kemur kostnaður vegna lúsameðhöndlunnar. Plús það hve mikill fiskur drepst. Það eru um og yfir 20% afföll af fiskinum og stór hluti þess er vegna meðhöndlunnar. Við losnum við það og við erum með undir 5% afföll af fiski á móti meðaltalinu sem er 20%. Við nýtum líka fóðrið betur svo það er lægri kostnaður í því og minna álag á lífríkið,“ segir Rögnvaldur.

„Við tökum vatnið inn af 25 metra dýpi. Lagskiptingin í sjónum er þannig að yfirleitt er hlýrra eða jafnari hiti í neðri lögunum. Að meðaltali erum við með lægra hitastig en er í opnu kvíunum en hitastigið er miklu jafnara hjá okkur. Fiskurinn vex hraðar, vegna þess að með því að taka inn vatnið af þessu mikla dýpi og af fjórum stöðum inn í pokann. Það er hringrás í pokanum þannig að við stýrum straumhraðanum og erum þess vegna með kjöraðstæður fyrir vöðvauppbyggingu fisksins. Hann er alltaf syndandi, hann er alltaf í ræktinni og verður þess vegna stífari og heilbrigðari. Um leið verður hann minna móttækilegur gagnvart stressi og stressast líka minna vegna þess að við erum ekki að meðhöndla hann gegn laxalús. Það skilar sér svo í heilbrigðari fiski,“ segir Rögnvaldur.

Hann sagði líka frá því að utan um trefjapokann stóra væri venjuleg nót, ef svo ólíklega færi að pokinn brysti. Þá tæki nótinn við fisknum. Þessi stóri búnaður hentar þó ekki allsstaðar og ekki þar sem er mikill öldugangur en fyrirtækið er að skoða aðstæður og hefur áhuga á að vera með fiskeldi af þessu tagi í fjörðunum við Ísafjarðardjúp. Sem stendur er verið að vinna umhverfismat fyrir þá í Eyjafirði.

Við höfum áhuga á Ísafjarðardjúpi líka og höfum áhuga á að vinna með heimamönnum. Við erum tilbúnir með tillögu að umhverfisáætlun, þar sem við horfum á innfirðina, Álftafjörð, Seyðisfjörð, Skötufjörð, og mynni Mjóafjarðar. Og við teljum að svona kerfi henti mjög vel og þeim aðstæðum sem eru hér í djúpinu. Við teljum líka að með þessu sé hægt að sætta ákveðin sjónarmið því við sýnum fram á það að við lágmörkum algjörlega strok úr kvíum og það finnst ekki laxalús í okkar kerfum,“ segir Rögnvaldur að lokum og það verður áhugavert að fylgjast með því hvort kvíar af þessu tagi nái fótfestu hér á landi.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA