Er félagsmálakona í blóðinu

Lilja Rafney í Súgandafirði.

Lilja Rafney á Suðureyri er kjarnakona sem tekið er eftir hvar sem hún fer. Hún situr á Alþingi okkar Íslendinga fyrir Vinstri græn og hefur setið þar síðan árið 2009, eða eftir hrun. Áður var hún varaþingmaður í átta ár. Þar á undan var hún mjög öflug í sveitarstjórnarmálum en hún var oddviti í Suðureyrarhrepp í fjögur ár og varabæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ eftir sameiningu. Auk þess hefur hún starfað mikið í verkalýðsmálum og var meðal annars formaður Verkalýðs og sjómannafélagsins Súganda í 16 ár. Hún segist vera félagsmálakona í blóðinu enda hefur Lilja Rafney kynnst mörgum hliðum atvinnulífs og verkalýðsmála áður en hún fór á þing.

Hún er alin upp á Suðureyri og með bakgrunn í „sveitinni heima á Stað,“ eins og hún orðar það. Þar bjuggu amma hennar og afi og Lilja dvaldi mikið hjá þeim sem barn. Foreldrar hennar eru Súgfirðingar Þóra Þórðardóttir kennari og Magnús Ingimarsson sjómaður og Lilja ólst upp á Suðureyri og fósturfaðir hennar frá 6 ára aldri er Valgeir Hallbjörnsson sjómaður. „Faðir minn bjó hér líka og stundaði sjóinn. Ég kynntist honum vel og föðurfólkinu öllu svo ég er mjög rík af ættingjum og systkinum. Umvafin stórfjölskyldunni á alla kanta,“ segir hún og brosir breitt.

Pólitíkin var aldrei langt undan í uppeldinu og Lilja Rafney segir að hún hafi nánast drukkið pólitíska umræðu með móðurmjólkinni. „Pólitísk umræða inni á heimilinu var alltaf til staðar. Móðir mín hefur alltaf verið mjög pólitísk og var líka eitt sinn ofarlega á lista hjá Alþýðubandalaginu, Þóra Þórðardóttir, kennari til 45 ára og Valgeir fósturfaðir minn hefur líka stutt mig með ráð og dáð. „Svo ég hef bara dálítið drukkið það með móðurmjólkinni að það fari vel á að rækta með sér sanngirni og réttlætiskennd. Og vilja hafa áhrif en ekki sitja til hliðar og horfa á. Vera þátttakandi en ekki bara gagnrýnandi á hliðarlínunni. Hafa áhrif til góðs,“ segir Lilja í samtali við blaðamann.

Lilja Rafney segir að harkan í sveitarstjórnarmálum hafi oft verið mun meiri þegar hún var ung manneskja að byrja. Það hafi þó verið að breytast með árunum en blaðamaður veltir því fyrir sér hvernig væri að vera alþingiskona og búa svo í litlu þorpi, þar sem allir þekkja alla og allir rekast utan í alla. „Mér finnst það mjög notalegt,“ er svarið við þeirri spurningu. „Þá er ég komin heim og það er allt eins og það á að vera og allir eru sem ein stór fjölskylda finnst mér. Ég upplifi þetta þannig. Og fólk er ekkert að bögga mig neitt og ég er ekkert að troða upp á fólk pólitíkinni svona þegar við hittumst á förnum vegi, mér finnst þetta meira vera vinátta á báða bóga. Svo mér finnst bara mjög mér hressandi og fínt að koma heim enda er heimili mitt á Suðureyri þó börnin 4 séu flogin úr hreiðrinu þá er þar maðurinn minn Hilmar Oddur Gunnarsson atvinnubílstjóri og sjómaður og bíður mín þolinmóður.“ Segir Súgfirðingurinn brosandi.

Þingmennirnir eru farnir að tínast suður aftur og Lilja Rafney er þar engin undantekning. Það eru mörg og stór verkefni sem bíða úrlausnar og Lilja segir að það sem snúi helst að henni í upphafi þings sem formanni atvinnuveganefndar, sé lagafrumvarpið um fiskeldið. „Það er gífurlega stórt verkefni sem við kláruðum ekki í vor vegna þess að mér og fleirum fannst að það væri ekki fullþroskað og ekki hægt að afgreiða það í einhverjum flýti. Vonandi næst góð samstaða um þetta mikilvæga mál og að hægt verði að skapi greininni sterka lagaumgjörð sem tryggir sjálfbærni og framtíðaruppbyggingu og sátt gagnvart öðrum atvinnugreinum sem og að staðið verði vörð um villta laxastofninn. Það verður að ná sem bestri sátt milli ólíkra sjónarmiða í þessum málum og ég tel að það eigi að vera hægt, vilji er allt sem þarf.

„En svo er auðvitað fjölmörg önnur brýn mál sem bíða. Það eru t.d. samgöngumálin og fyrir þetta svæði er það mjög brýnt að Dynjandisheiðin byggist upp samhliða Dýrafjarðargöngunum svo Vestfirðir verði sterkari sem ein heild samfélagslega. Og svo er þetta langþráða verkefni að ljúka vegagerð um Barðastrandasýslu þar er Teigskógurinn margumtalaði undir og enn er verið að skoða aðrar leiðir . Þetta má ekki þvælast áfram í kerfinu endalaust það er ekki boðlegt gagnvart byggðinni á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég var orðin hlynnt nýrri veglínu um Teigskóg sem hafði lítið rask í för með sér en nú er verið að taka annan snúning á málinu en þessar framkvæmdir þola enga bið frekar en samgöngubætur á norðanverðum Ströndum þar sem byggðin er í mikilli varnarbaráttu. Það verður auðvitað að fara að sjá fyrir endann á ónýtum malarvegum ,það er okkur öllum til lítils sóma að þessar framkvæmdir hafi dregist svona lengi,“ segir þingmaðurinn.

En hvernig er að vera í samstarfi við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk á Alþingi? „Já veistu það að ég er bara alin upp við það, í svona míní útgáfu af stóru samfélagi eins og hérna á Suðureyri, að við séum bara öll venjulegar manneskjur sem viljum með einum eða öðrum hætti bæta okkar samfélag,“ svarar Lilja þessari spurningu. „Ég vil ekki vera með fyrirfram fordóma gagnvart neinu fólki , heldur vil ég geta lagt mig fram um að vinna með öllu fólki og reyna að ná niðurstöðu. Mér finnst það bara vera verkefnið. Ég lít ekki þannig á að ég sé að ganga í björg og að ég verði sjálfstæðis eða framsóknarmaður í blönduðu stjórnarsamstarfi ólíkra flokka, heldur séum við öll líka stjórnarandstaðan að leggja okkar spil á borðið og að reyna að gera úr því góðan kapal sem gengur upp til að gera samfélagið betra.“

„Og ég er bara þannig gerð, að mér finnst betra að reyna að hafa einhver áhrif heldur en að vera á hliðarlínunni og gagnrýna, en geta kannski voða lítið haft áhrif í praktík. Svo ég geng bara glaðbeitt til þessa samstarfs og reyni að gera það besta úr hlutunum. Það er gott fólk í öllum flokkum. En þetta væri ekki endilega fyrsta val mitt ef ég hefði ein um það að segja. Þá vildi ég auðvitað frekar vera í vinstri félagshyggjustjórn en þegar það er ekki í boði, að það sem kemur uppúr kössunum sýni ekki fram á að sá kapall gangi upp, þá bara gengur maður í það að reyna að vinna með því góða fólki sem vill vinna með okkur.“ Ég er stolt yfir því að hafa náð samstöðum innan þingsins í vor um að koma á dagakerfi í strandveiðunum og efla þær og auka öryggi sjómanna . Þó oft sé langsótt að fá mál afgreidd sem lögð eru fram í þinginu þá er það alltaf gleðiefni þegar það tekst í þokkalegri sátt. Lífið er jú stöðug málamiðlun.

Lilja Rafney sagði að lokum að það væri full ástæða til að vera bjartsýnn fyrir hönd Vestfjarða. „Ég held að okkar tími sé kominn og þrautseigja fólks sem býr hérna á Vestfjörðum sé að skila sér í góðum verkum. Við erum að fá fullt af ungu og öflugu fólki hingað á svæðið sem hefur trú á Vestfjörðum og við getum byggt hérna upp öflugt nútíma samfélag. Við gerum að sjálfsögðu sömu kröfur og aðrir landsmenn, um að hafa innviðina í lagi og þá er engin hætta á öðru en að þetta samfélag blómstri og verði til fyrirmyndar.“
„Og ekki spillir náttúran fyrir,“ bætir hún við og hlær, „heldur erum við svo heppin að búa þar sem auðlindirnar eru allt í kring og fegurðin. Við þurfum bara að vanda okkur og vera sjálfbær gagnvart náttúrunni og passa vel upp á hana, þá held ég að okkur farnist vel á Vestfjörðum,“ segir Lilja Rafney.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA