Skaginn 3X á blússandi siglingu

Það er blússandi sigling á Skaginn 3X á Ísafirði. Fyrirtækið er með 15 menn í vinnu fyrir Varðin Pelagic í Suðurey í Færeyjum. Þar er verið að byggja nýja uppsjávarverksmiðju í staðinn fyrir vinnslu sem brann í fyrra. Verksmiðjan verður sú stærsta og fullkomnasta í heimi með vinnslugetu upp á 1.700 tonn á sólarhring.

Skaginn 3X er með nokkra starfsmenn við uppsetningu á búnaði um borð í Sighvati GK 57 sem liggur bundinn við bryggju á Ísafirði.

Fram undan er stórt verkefni á Shikotan eyju í Kuril eyjaklasanum sem er við Kyrrahafsströnd Rússlands, þar sem til stendur að setja upp fullkomið uppsjávar frystihús og má búast við að 4 – 5 menn verði sendir fljótlega þangað til að vinna við uppsetningu á búnaði. Kaupandi búnaðarins er JSC Gidrostroy sem er með 3.600 starfsmenn auk 1.700 sjómanna meðan á vertíð stendur. Fyrirtækið er staðsett á þessari afskekktu eyju og er fyrirtækið burðarás í atvinnulífi á Sakhalin eyja svæðinu.

Í næstu viku fara fjórir starfsmenn fyrirtækisins til Suður Ameríku til uppsetningar á fullkomnu karakerfi. Tveir menn eru í Noregi við uppsetningu á söltunarbúnaði fyrir saltfiskvinnslu þar í landi.
Pöntunarbókin hjá Skaginn 3X lítur vel út með miklum verkefnum fyrir fyrirtækið í framtíðinni.

Gunnar