Vestfirska fyrirtækið Sjótækni

Norski báturinn sem Sjótækni leigir þessa daga.

Fyrirtækið Sjótækni er Vestfirskt fyrirtæki sem þjónustar fiskeldisfyrirtæki í fjórðungnum og hefur jafnframt sérhæft sig í neðansjávarlögnum og verið leiðandi á því sviði hérlendis í um þrjá áratugi. Ýmiss önnur verkefni eru innan starfssviðs fyrirtækisins svo sem viðhald hafnarmannvirkja, virkjana og fleira. Annar eigandi fyrirtækisins og framkvæmdastjóri er Kjartan Jakob Hauksson sem lýsir starfsviði þess þannig að það sé hafsækinn verktaki. Hjá fyrirtækinu starfa 14 starfsmenn og gerir það út þrjá báta auk nokkurra minni hraðbáta og vinnupramma.

Fiskeldi er hátækniiðnaður sem meðal annars reiðir sig á þjónustufyrirtæki eins og Sjótækni. Fyrirtækið sinnir rannsóknum, útsetningu kvía og eftirliti með eldisbúnaði ásamt þvotti á eldisnótum og köfunarþjónustu.

Kjartan er Ísfirðingur, ættaður úr Reykjarfirði á Ströndum og komin af miklu öndvegisfólki. Fyrir þá sem gengið hafa Strandir og komið við í Reykjafirði og látið líða úr sér þreytuna í sundlauginni á staðnum kannast við viðmót og gestrisni íbúa þar. Sagt hefur verið um Reykjafjarðarfólkið að það hafi aldrei flutt þaðan, heldur haft vetrarvist annarsstaðar, til dæmis í Bolungarvík. Kjartan er meðal annars þekktur fyrir að vera fyrstur til að róa árabát einn síns liðs í kringum Ísland. Hann var einnig fyrstur til að róa til Íslands frá öðru landi en hann lagði upp við þriðja mann á árabáti frá Noregi til Íslands. Allt var þeim reyndar mótdrægt í þeirri ferð en þeim tókst að ljúka henni, enda miklir garpar undir árum.

Annar eigandi Sjótækni, Kjartan Jakob með Jóni Halldóri.

Fyrir rúmum tveimur árum tók Sjótækni þá metnaðarfullu ákvörðun að innleiða umhverfisvottun í starfsemina og hefur fyrirtækið nýlega fengið lokaúttekt frá DNV-GL (Det Norske Veritas-GL) samkvæmt ISO 14001. Samkvæmt bestu vitund er það fyrsta vestfirska fyrirtækið sem hlýtur slíka vottun ásamt því að vera fyrsta og eina útgerðar- og köfunarþjónusta landsins sem svo háttar um. Vinna við öryggis- og gæðavottun er svo í gangi hjá Sjótækni núna og eru vonir bundnar um að ná þeim áföngum á komandi vetri. Mikil vinna og fjármagn fer í slíkar vottanir en það er trú eiganda Sjótækni að þetta skili sér í meiri gæðum og áreiðanleika þjónustunnar til handa öllum viðskiptavinum fyrirtækisins.
Slík þjónusta er einmitt lykilatriði fyrir laxeldi og framtíð þess fyrir Vestfirskt samfélag. Það er ein af forsendum þess að hægt verði að reka laxeldisfyrirtæki á umhverfisvænan hátt í sátt við menn og málleysingja.

Starfsmenn fyrirtækisins eru núna staddir í Ísafjarðarbæ vegna útsetningar á legufærum og tengdum fiskeldisbúnaði fyrir fyrirtækið Hábrún sem lengi hefur haft fiskeldiskvíar í Skutulsfirði. Til marks um hve fagmennska hefur tekið miklum framförum við slíka vinnu þá eru starfsmenn Sjótækni mættir hér með sérútbúinn bát til verksins sem leigður er af norska fyrirtækinu Abyss Aqua AS. Miklar kröfur eru gerðar um útsetningu kvía til að hámarka öryggi þeirra.

Gunnar

DEILA