Umhverfis og náttúruvernd. Uppbygging og samfélagsvernd.

Að vera í sátt við guð og menn er okkur hverju og einu oft mislagðar hendur, en öll erum við partur af náttúrunni og getur drjúgur tími ævinnar farið í að gera sér grein fyrir því. Ein er sú tegund sáttar sem við, er látum okkur málin varða, erum ekki á einu máli um en það er hvernig staðið er að samfélagsuppbyggingu og þjónustu í dag.

Í mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er til næstu 50 ára spáð að íbúafjöldi verði 452 þúsund samkvæmt miðspá. Háspá gerir ráð fyrir 531 þúsund en lágspá 367 þúsund. 1 janúar 2017 var íbúafjöldi á landinu 338 þúsund. Birt eru þrjú afbrigði af spám, það er háspá, miðspá og lágspá sem byggðar eru á mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Hvernig sem rætist úr þessari mannfjöldaspá inn í framtíðina þá er það staðreynd í dag að misjafnt er hvar á landinu þú býrð, hvernig þjónustu þú færð og þau fyrirtæki sem rekin eru vítt og breytt um landið. Samgöngu, raforku, heilbrigðismál og öll önnur þjónusta, svo kallaðir innviðir eru ekki á pari víða út á landi miðað við það sem þyrfti að vera nú á tímum.

Samgöngumál og afhendingaröryggi raforku er víða ábótavant svo ekki sé dýpra í árina tekið og oft er það vegna umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Ég vil taka það fram að sjálfur er ég náttúruunnandi og ber mikla virðingu fyrir umhverfismálum. Í mínu kjördæmi sem er norðvesturkjördæmi hefur verið til margra ára deilt um veglagningu um Gufudalssveit á Barðaströnd, (Teigskógsmálið) og núna eru áform um Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð á Ströndum að sigla í þrætur. Víða á Vesturlandi eru vegir í slæmu ásigkomulagi. Í Dalasýslu eru um 70% malarvegir, svipaða sögu er hægt að segja í Húnavatnssýslum. Á Snæfellsnesi er raforkuflutningur ekki tryggur, sömu sögu er að segja á Vestfjörðum, þó hefur verið sett varaaflstöð á Bolungarvík sem er díseldrifin og varla getur það verið vistvænn kostur þegar bæði vindur og vatnsföll búa yfir hreinni orku.
Búsetuskilyrði hljóta í grunninn að byggjast á þeirri aðstöðu sem býðst á hverjum stað með góðum samgöngum, öryggi í raforkuafhendingu og auðvitað allri þjónustu sem nauðsynleg er.

Sigurður Páll Jónsson.
Þingmaður Miðflokksins í Norðvestur kjördæmi.