„Sumarið er búið að vera eins og haust”

Ferjan Baldur. Mynd: Sæfari.

Erfitt reyndist að koma ferjunni Baldri að bryggju við Brjánslæk sunnudagskvöldið 29. júlí síðastliðinn vegna veðurs. Blaðamaður BB var um borð í þessari siglingu þar sem mikill veltingur gerði vart við sig í lok ferðar og óvenju langan tíma tók að koma Baldri að bryggju. Það var mjög hvasst þetta kvöld miðað við árstíma að sögn Sigmars Loga Hinrikssonar, skipstjóri Baldurs. Hann sagði að svona aðstæður sjáist aðeins örfáum sinnum á ári og þá að vetri til. „Það var mjög hvasst þarna við Brjánslæk og eru þetta mjög óalgengar aðstæður. Þetta er búið að vera skrýtið sumar, mikið um suðvestan áttir sem eru slæmar og höfum við ekki séð þetta svona mjög lengi. Allt sumarið er nánast búið að vera eins og haust. Það þurfti til dæmis að sleppa því að koma við í Flatey í einni ferðinni vegna veðurs.“ segir Sigmar Logi.

Sigmar segir að sem betur fer hafi skipið ekki skemmst. „Við svona aðstæður þá fjúkum við bara frá bryggjunni, þannig að við þurfum að gera þetta rólega. Vélarkrafturinn ræður ekki við þetta og ekki margar vélar sem myndu ráða við þessar aðstæður. Þetta gekk samt eðlilega fyrir sig og þetta tekur bara lengri tíma. Það var aldrei nein hætta sem skapaðist og það eru vanir menn hér um borð.“ segir Sigmar Logi að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA