Stuð á Náttúrubarnahátið á Ströndum

Börnin gerðu brúður úr ýmsu sem þau fundu í fjörunni. Mynd: Dagrún og Jón Jónsson.

Það var líf og fjör á Náttúrubarnahátíð á Ströndum síðastliðna helgi. Hver viðburðurinn rak annan. Gestir fóru í náttúrujóga og gönguferðir, á hestbak og tóku þátt í skemmtilegum lista- og náttúrusmiðjum. Þar lærðu gestir um fuglana, unnu að listsköpun með veðrið sem útgangspunkt, tóku þátt í útieldun og nýttu allskonar dót sem þeir fundu í fjörunni til að búa til brúður. Einnig var boðið upp á magnaða tónleika með Ylju og Hundi í óskilum. Leiklistin var líka áberandi, Strandanornir sýndu leikþátt og Handbendi brúðuleikhús kom í heimsókn með sýningu. Góðir gestir úr Latabæ, víkingar úr félaginu Víðförull og margir fleiri.

Dagrún Ósk Jónsdóttir yfirnáttúrubarn og skipuleggjandi hátíðarinnar var ánægð með helgina: „Það gekk allt alveg ótrúlega vel og ég held að þeir sem mættu hafi skemmt sér ljómandi vel. Veðrið og veðurspár settu dálítið strik í reikninginn, það rigndi mikið á föstudaginn. Veðurgaldurinn fór ekki að virka fyrr en á laugardag og það var blankalogn í veður- og vindsmiðjunni,“ segir Dagrún og hlær. Heldur færri gestir voru á hátíðinni en búist var við, en nokkuð á annað hundrað manns mættu.

Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni sem var nú haldin í annað skiptið á Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð. „Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt og mig langar að þakka öllum kærlega fyrir komuna, bæði þeim sem skemmtu og þeim sem mættu til að njóta,“ segir Dagrún.

En hvað er næst á dagskrá hjá Náttúrubarnaskólanum? „Það er nóg skemmtilegt um að vera, við höldum áfram að vera með námskeið fyrir börn alla fimmtudaga með ólíkum náttúruþemum. Svo verða áfram gönguferðir í hverri viku með Sauðfjársetrinu og Byggðasafni Dalamanna og fleiri skemmtilegir viðburðir,“ segir Dagrún að lokum. Meðfylgjandi myndir eru frá Dagrúnu og Jóni Jónssyni.

Mynd: Dagrún og Jón Jónsson.   Mynd: Dagrún og Jón Jónsson. Mynd: Dagrún og Jón Jónsson. Mynd: Dagrún og Jón Jónsson.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA