Spennandi hugmyndavinna á Hólmavík

Agnes og Guðrún. Mynd: Dagrún Ósk.

Háskólanemarnir Agnes Jónsdóttir og Guðrún Gígja Jónsdóttir hafa í sumar verið að vinna í verkefni með titilinn Hólmavík – íbúabyggð og ferðamannastaður, ásamt Jóni Jónssyni sem er verkefnisstjóri Rannsóknarseturs Háskóla Íslands – Þjóðtrúarstofu á Hólmavík. Verkefnið byggist á því að skrifa skýrslu um hvernig megi gera Hólmavík að betri stað bæði fyrir íbúa og ferðamenn með umbótum á almannarýminu og útivistarsvæðum. Agnes og Gígja hafa báðar lært þjóðfræði, en koma þó með ólíka sýn inn í verkefnið. Agnes ólst upp á Hólmavík, en Guðrún er úr Reykholti í Biskupstungum. Blaðamaður BB.is hitti stelpurnar og forvitnaðist um verkefnið.

Stelpurnar segja verkefnið ganga vel, en þær komu inn í það í byrjun júní í tengslum við styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og munu vinna í verkefninu út september: „Verkefnið gengur mjög vel, Hólmavík er bara yndisleg og gaman að koma og fá að taka þátt í þessu. Það eru allir búnir að vera mjög skemmtilegir og tilbúnir að taka þátt,“ segir Guðrún Gígja. „Við erum búin að safna mikið af upplýsingum og mörgum góðum hugmyndum hefur verið gaukað að okkur,“ bætir Agnes við. Þátttaka íbúa er mikilvæg fyrir verkefnið, haldinn hefur verið íbúafundur á Hólmavík auk þess sem sendur var út spurningalisti sem íbúar Hólmavíkur geta tekið þátt í: „Við höfum fengið mjög mikil og jákvæð viðbrögð við spurningalistanum frá fólki á öllum aldri“ segir Agnes. „Við höfum verið að safna upplýsingum og vinna úr þeim til dæmis um ákveðnar gönguslóðir fyrir mismunandi markhópa af fólki og erum líka að vinna með þemu sem einkenna Hólmavík. Það er til dæmis ríkt menningarlíf, kórar og leikfélag, og svo er gaman að spekúlera í hvernig nýta má galdrana betur sem einkenna Hólmavík,“ bætir Agnes við. Næst á dagskrá er að vinna úr upplýsingum, auk þess að leita til fyrirtækja og félaga. Stelpurnar bæta við að gaman væri að fá enn fleiri svör við spurningalistanum þó mörg séu komin nú þegar. Spurningalistann má nálgast hér.

Lokaafurðin verður skýrsla sem verður skilað til sveitarfélagsins þar sem hugmyndum og aðferðum verður komið á framfæri. “Önnur lítil þorp gætu nýtt sér þessa vinnu líka. Ein hugmyndin er að skýrslan verði einskonar uppskrift að aðferð um hvernig sé hægt að vinna með sérstöðu, sögu og umhverfi fyrir ferðamenn og íbúa” segir Guðrún Gígja. “Stemmningin í kringum verkefnið er líka mjög góð. Sem utanaðkomandi finnst mér mjög gaman að fá að kynnast stemmningunni á Hólmavík betur þó ég hafi nú oft komið áður og eigi vinafólk hér. Þetta er líka svo góður staður fyrir svona tilraunaverkefni, það eru allir svo jákvæðir og það vilja allir fegra sveitarfélagið sitt. Svo er búið að bralla margt skemmtilegt á svæðinu. Ég er mjög skotin í Hólmavík,“ segir Guðrún. Agnes tekur undir með henni „Mér finnst frábært að það sé verið að vinna í uppbyggingu, ég er sjálf alltaf að læra eitthvað nýtt um staðinn og finnst gaman að stuðla að því að að fleiri geti gert það sama,“ segir hún að lokum.

Dagrún

dagrun@bb.is

DEILA