Siglinganámskeið Sæfara á Ísafirði afar vinsælt

Jóhanna vinnur á siglinganámskeiði Sæfara og er einstaklega frökk við að hoppa í sjóinn.

Á hverju sumri hópast krakkar á Ísafirði og nágrenni á siglinganámskeið hjá Sæfara. Það eru þau Guðrún Jónsdóttir, Torfi Einarsson maður hennar og Einar sonur þeirra sem standa fyrir námskeiðunum og hafa gert það í mörg ár. Í fyrstu voru fimm námskeið yfir sumarið, en þau urðu að bæta einu við, og foreldrar verða að vera snöggir að skrá börn sína á námskeiðið því þau verða full um leið. Guðrún og Torfi geta tekið á móti 13 krökkum á námskeiðið en að auki starfa hjá þeim unglingar úr vinnuskólanum sem hafa verið á námskeiðinu árin á undan.

„Við erum mjög þakklát fyrir það að bærinn skuli skaffa okkur vinnuafl frá vinnuskólanum því það er mikil vinna sem fylgir þessu, að bera bátana, þrífa búningana og þurrka svo þeir geti blotnað aftur morguninn eftir.“ Segir Guðrún í samtali við BB og hlær. Það heyrist glöggt þegar hún talar hversu mikla umhyggju hún ber fyrir börnunum og hve mikið þau fjölskyldan njóta þess að geta boðið upp á þessi námskeið.

„Við byrjum á því að fara í göngutúr og leiki á morgnana og svo erum við komin hingað í Sæfara um klukkan 9 og þá tekur tíma að komast í gallana og græja sig og borða nesti og svona. Svo förum við á kajak og bretti og bara allt sem flýtur,“ segir Guðrún. Börnin geta ekki kvartað yfir úrvalinu því þarna í fjöruborðinu eru allskonar faratæki sem fljóta á sjó. „Brettin sem þú sérð hérna eru sérlega vinsæl og svo erum við með árabát, það er alveg nýtt en fólk kann ekki að róa í dag, bara svona gamaldags að róa árabát en þetta er rosalega vinsælt hjá krökkunum. Og mjög skemmtileg viðbót hjá okkur. Við erum líka með skútur en veðrið er einfaldlega búið að vera þannig núna að við höfum lítið getað notað þær. Það hefur einfaldlega verið alltof hvasst eða svartalogn og þá siglir enginn,“ segir hún kankvís.

„En við erum sem sagt með gríðarlega mikla fjölbreytni og við erum alltaf að bæta við. Þessir „Sit on top“ kajakar eru til dæmis nýjir og við erum líka alltaf að eignast betri og betri galla fyrir krakkana, það skiptir líka máli, með þykktina á göllunum. Við erum að bæta við göllum sem eru meira en 5 mm þá eru þeir hlýrri.“ Það er greinilegt að börnin njóta þess í botn að vera á námskeiðinu og ekki að ástæðulausu að það er uppselt á það um leið, ár eftir ár eftir ár.

Abdulrahman var býsna stoltur þegar hann stökk í sjóinn í fyrsta skiptið
Már úr Bolungarvík skemmti sér vel.
Hafsteinn hafði einstaklega gaman af því að stríða blaðamanni BB.
Abut var kátur á siglinganámskeiði Sæfara
Andri frá Flateyri og Óli úr Kópavogi urðu ágætis vinir þessa viku á námskeiðinu.
Eldri krakkarnir hafa einstaklega gaman af því að fara með þau yngri á spíttbátinn.
Helgi ofurmenni og Arnór gera traustæfingu.
Æfingin mistókst, Arnóri til mikillar skemmtunnar.
Már, Krummi, Bríet, Jóhanna og Arnar búa sig undir ferð á spíttbátnum.
Krakkarnir mynda röð til að fara í spíttbátinn.

 
Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA