Líf og fjör á Hamingjudögum

Hnallþóruhlaðborð á Galdratúninu. Mynd: Dagrún Ósk.

Það var mikið um hamingju og almenna gleði á Hamingjudögum á Hólmavík sem haldnir voru núna um helgina. Nóg var um að vera, mikið úrval fjölbreyttra viðburða og gekk hátíðin mjög vel. Íris Ósk Ingadóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar var að vonum ánægð með helgina: „Þetta gekk mjög vel, það var líka gott veður. Við vorum alltaf svoldið að bíða eftir því að það færi að rigna þarna á föstudeginum og laugardeginum en svo gerðist það ekkert,“ segir hún hress.

Viðburðirnir gengu að hennar sögn mjög vel og var góð mæting á þá. Sjálf segir hún að litlir og óvæntir viðburðir séu alltaf í uppáhaldi hjá henni: „Eins og vígslan á brúnni yfir Hvítá á laugardagsmorgun sem átti að vera mjög lítil og óformleg. Eiríkur Valdimarsson sem er formaður umhverfisnefndar átti bara að fylgja hópnum og segja nokkur orð við brúnna en brúarsmiðirnir, Sverrir Guðbrandsson og Ágúst Þormar Jónsson, komu hópnum svo á óvart með að standa á brúnni í jakkafötum þegar að þau komu. Þeir voru búnir að strengja borða fyrir hana í fánalitunum og voru með skæri á púða þarna við hliðina á. Það var ótrúlega skemmtilegt. Svo afhenti Lionsklúbburinn Strandabyggð óvænt bekki á setningarathöfninni. Eitthvað svona sem er ekki á dagskránni en er gert, yndislega fallegir viðburðir sem er mjög gaman að“ segir Íris ánægð. „Svo fæ ég líka alltaf tár í augun þegar hamingjuhlaupararnir koma, ég veit ekki af hverju“ segir hún hlæjandi.

Frá opnun brúarinnar yfir Hvítá á laugardeginum. Mynd: Dagrún Ósk.
Leikhópurinn Lotta er alltaf skemmtileg. Mynd: Dagrún Ósk.
Spilað og sungið. Mynd: Dagrún Ósk.
Strandanornir sýndu frumsamið leikrit. Mynd: Dagrún Ósk.
Trjónufótboltinn er ómissandi hluti af Furðuleikunum sem eru á sunnudeginum. Mynd: Dagrún Ósk.

Nýtt á dagskránni var líka rjómatertu kast þar sem hægt var að borga fyrir að kasta rjóma í sveitarstjórnina og verður peningurinn sem safnaðist svo notaður til að ryðja af stað söfnin fyrir svokölluðum ærslabelg. Íris segir tertukastið hafa verið mjög skemmtilegt og greint verði frá því á næstunni hve mikill peningur safnaðist.

Dagrún Ósk

dagrun@bb.is

DEILA