Lax ekki farinn að ganga að ráði

Nú bráðlega fer villtur lax að ganga upp í árnar á Vestfjörðum, þó ekki sé hann kominn í allar árnar ennþá. Það er þó ekki úr vegi að skoða þær veiðitölur sem komnar eru. Í Fjarðarhornsá í Kollafjarðarbotni í Austur Barðastrandasýslu, veiðast að meðaltali 17 laxar á ári. Áin telst vera vænlegri bleikjuá en laxá. Í ár hafa engir skráðir laxar veiðst, enn sem komið er. Í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi er „eitt besta dæmi um vel heppnaða fiskirækt hérlendis,“ eins og segir á heimasíðu Landssambands veiðifélaga. Áin var fisklaus þangað til fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss. Í ár hafa veiðst þar 10 laxar en í fyrra veiddust alls 175 laxar.

Langadalsá við Djúp á upptök sín á Þorskafjarðarheiði. Þar veiðast að meðaltali 172 laxar á ári en auk þess er oft góð bleikjuveiði í ánni. Leyfilegt er að veiða á 4 stengur í senn og einhverjir laxar hafa veiðst á þessu tímabili en ekki hafa verið birtar veiðitölur hjá Landssambandi veiðimanna þegar þetta er skrifað. Í Staðará í Steingrímsfirði veiðast að meðaltali 64 laxar á ári. Veiðin hefur þó sveiflast frá 6 löxum og upp í 169 laxa mest. Bleikjuveiðin er um 218 fiskar á ári en ekkert hefur veiðst af laxi enn sem komið er. Hrófá í Strandasýslu er ekki opin almenningi en þar veiðast um 47 laxar á ári. Í Krossá í Bitru veiðast um 83 laxar á ári en áin er fiskgeng frá sjó og 6 km upp með ánni. Í Víkurá í Strandasýslu veiðast um 79 laxar á ári og einhverjar bleikjur. Áin er ekki opin almenningi. Í Vatnsdalsá í Vatnsfirði eru seld veiðileyfi fyrir bæði lax og silung. Best er laxveiðin eftir miðjan júlí, eins og í flestum ánum fyrir vestan en yfirleitt hafa veiðst á milli 15 og 30 laxar á ári, um 60 bleikjur og 40 sjóbirtingar.

Í Hvannadalsá við Djúp hafa mest veiðst 304 laxar árið 2008 en ekki er sagt hvert meðaltalið fyrir árin eru og engir laxar hafa veiðst það sem af er ári. Fyrirtækið Lax-á ehf. í eigu Árna Baldurssonar í Reykjavík, er leiguhafi að veiðirétti í ánni og einnig Krossár í Bitru og Langadalsár við Djúp. Í Hvannadalsá við Djúp segir á heimasíðu Landssambands veiðifélaga: „Leigutaki er Lax-á ehf. og hefur fyrirtækið stundað umfangsmiklar gönguseiða- sleppingar í ána nokkur undanfarin vor. Er hún þannig orðin áhugavert veiðivatn í hópi 2-3 stanga áa.“ Engar veiðitölur hafa þó borist fyrir árið 2018.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA