Kjötsúpuhátíð á Hesteyri um Verslunarmannahelgina

Hesteyri. Mynd: Aðsend.

Um Verslunarmannahelgina verður hin sívinsæla Kjötsúpuhátíð á Hesteyri endurvakin. Hátíðin fer fram laugardaginn 4. ágúst og skipulagið gæti ekki verið einfaldara. Það verður siglt frá Bolungarvík til Hesteyrar með Hauki Vagnssyni á Hesteyri ÍS 95. Siglingin tekur aðeins um klukkustund. Ef þörf krefur verður líka siglt frá Ísafirði. Hægt verður að velja á milli þriggja brottfarartíma. En fyrsti hópurinn eða svokallaður rauði hópur fer frá Bolungarvík klukkan 12 á hádegi og heim aftur klukkan 20. Í millitíðinni á Hesteyri er frjáls tími, Hesteyrarkjötsúpa í Læknishúsinu og ýmislegt fleira. Næsti hópur eða sá græni siglir klukkan 14 og heim klukkan 22. Sama verð er á þessari ferð og þeirri rauðu og gestir fá einnig pönnsur, leiki, varðeld og söng.

Seinasti hópurinn eða sá blái siglir klukkan 16 og mætir beint í kjötsúpuna á Hesteyri. Það er Hrólfur Vagnsson sem matreiðir eftir uppskrift ættmóðurinnar Birnu Hjaltalín Pálsdóttur. Eftir súpuna er boðið upp á kaffi og pönnuköku með sykri og svo verður hin skemmtilegasta dagskrá sem Pálína Vagnsdóttir stýrir. Þar verða leikir, söngur, fíflagangur og almennt glens og gaman uns gengið er í fjöru þar sem tendraður verður varðeldur og sungið fyrir hafið. Ferð með bláa hópnum er ögn dýrari en hinar þar sem með honum verður einnig boðið upp á bíósýningu á myndinni „Ég man þig“ sem byggð er á skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Sýningin hefst klukkan 22 og henni fylgir að sjálfsögðu popp og kók.

Allar nánari upplýsingar má fá hjá Pálínu Vagnsdóttur í síma 848 6019 en einnig er hægt að bóka ferðina hjá Borea Adventures, Vesturferðum ehf., Wild Westfjords, Hauki Vagnssyni í síma 862 2221 eða Hrólfi Vagnssyni í læknishúsinu í síma 899 7661

Sæbjörg
bb@bb.is