Ísak Pálmason er andlit Ögurballsins 2018

Unnendur sveitaballa bíða í ofvæni eftir einu vinsælasta og elsta sveitaballi Vestfjarða, Ögurballinu fræga, en það fer fram í Ögri laugardagskvöldið 21. júlí.
Rómantíkin, gleðin og sveitaballasjarminn sem svífur yfir Ögurballinu hefur löngu hlotið landsfrægð. Dansgólfið dúar þegar það fyllist og rabarbaragrautur með rjóma er borinn fram fyrir ballgesti í danspásum en það er ein sú hefð sem Ögursystkinin halda fast í.
Rabarbaragrauturinn hefur ávallt verið hluti af ballinu en fólk sem kom ýmist siglandi, ríðandi eða gangandi á ballið fékk rabarbaragraut til að fá næga orku til að koma sér heim eftir ballið.

Stuðbandið Halli og Þórunn sjá um að skemmta fólki á ballinu. ,,Þau hafa spilað þarna síðan við tókum við þessu og eru æviráðin. Þau taka þó pásu og það er misjafnt hver skemmtir í pásunum,’’ segir María Sigríður Halldórsdóttir sem er í Ögurfjölskyldunni og einn af skipuleggjendum ballsins. Í fyrra skemmti Sesar Afrikanus (Eyjólfur Eyvindarson) fólkinu í pásunni en hann var einmitt að skemmta sér á ballinu. Hver verður pásutrúður nú í ár er ekki gefið upp.

Ísak Pálmason er andlit Ögurballsins 2018.

Á hverju ári er andlit Ögurballsins valið af Ögursystkinum og í ár er það Ísak Pálmason. Ísak er 27 ára gamall Ísfirðingur en hefur búið í Reykjavík síðastliðin ár. Hápunktur ársins hjá Ísaki er að mæta á Ögurball og hefur hann verið fastagestur frá því að hann hafði aldur til að mæta. Það er að mörgu að huga í undirbúningnum fyrir andlit Ögurballsins og einkennast dagarnir af stífum æfingum fyrir kónga dansinn, bragðprófunum á rabarbaragrautnum og boðum hjá helstu ráðamönnum þjóðarinnar sem vilja ólmir eiga fund með andliti Ögurballsins.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA