Hugleiðsluskóli heimsækir Ísafjörð og Bolungarvík

Hugurinn er öflugt fyrirbæri.

Hugleiðsluskólinn Lótushús verður með frítt hugleiðslunámskeið á Ísafirði og Bolungarvík dagana 16.-19. júlí.

Það er alltaf ókeypis á öll námskeið hjá Lótushúsinu en þau líta á þetta sem þjónustu við samfélagið og að fólk eigi að geta átt þess kost að koma á námskeið sem þessi óháð fjárhagsaðstæðum. Þeim hefur lengi langað að koma með námskeið til Vestfjarða og hlakka mikið til.

En hvað er hugleiðsla? Stefanía Óskarsdóttir, leiðbeinandi hjá Lótushúsinu segir að hugurinn sé ótrúlega öflugt verkfæri og ef við nýtum hugarmáttinn á uppbyggilegan hátt getur það haft mikil áhrif á líf okkar og líðan. Á Raja Yoga hugleiðslunámskeiðinu sem þau eru að koma með til Ísafjarðar og Bolungarvíkur munu þau kenna einfaldar en áhrifaríkar aðferðir til að leiða eigin hug inn í uppbyggilegar hugsanir en einnig gengur hugleiðslan út á að læra að þekkja sjálfan sig á nýjan hátt og virkja eigin styrkleika.

En fyrir hvern er hugleiðsla? ,,Hugleiðsla er í raun fyrir alla. Í Lótushús í Garðabæ kemur afar fjölbreyttur hópur fólks, á öllum aldri og hefur reynslan sýnt okkur að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.’’ Hugleiðslunámskeið er fyrir hvern sem langar að líða betur, finna hugarró og tengjast sjálfum sér á nýjan hátt, læra að hlusta inn á við og treysta.
Námskeiðið á Ísafirði er tvö skipti (fyrri og seinni hluti); þriðjudaginn 17. júlí og miðvikudaginn 18. júlí kl. 17:30-19:30. Námskeiðið verður haldið í Hömrum, Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Í Bolungarvík verður námskeiðið haldið í Tónlistarskóla Bolungarvíkur mánudaginn 16. júlí kl. 19:30-20:30.

Viðburðina má einnig skoða á facebook hér fyrir Ísafjörð og hér fyrir Bolungarvík

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA