„Hætta á að sumar plöntur yfirtaki heilu garðana“

Erfitt getur reynst að eiga við Skógarkerfilinn ef hann fær að sá sér villt. Mynd: Vísindavefurinn.

Sumar plöntutegundir hér á landi geta reynst erfiðar viðureignar ef þeim er leyft að sá sér villt. Skógræktarneminn Narfi Hjartarsson frá Patreksfirði sagði blaðamanni BB frá því að þessar innfluttu plöntur væru víða vandamál hér á landi. „Þetta eru inn-fluttar tegundir, en þess ber að geta að ég hef ekkert á móti innfluttum tegundum og fagna því að verið sé að koma með fleiri tegundir hingað til lands. Þetta er flutt inn sem skrautjurtir en t.d. í Stykkishólmi og í Reykjavík líka þá er þetta að valda leiðindum. Til dæmis Skógarkerfillinn, hann hefur sáð sér mikið í Esjuhlíðunum í lú-pínubreiðurnar og tekur yfir þær. Þetta verður einhæft og erfitt yfirferðar. Það sama getur gerst í heimilisgörðum og blettum sem eru ekki í ræktun. Eins með plöntutegundir eins og risa hvannir, þær geta orðið að vandamál ef þær byrja að sá sér. Þetta eru stórar og heillandi plöntur og börnum finnst kannski gaman að leika sér í þessu en safinn í þeim gera okkur ljósnæm og við getum brunnið og fengið blöðrur og getur það verið sársaukafullt, þetta er hættulegt sérstaklega fyrir börn.“

Narfi segir að þessar plöntur séu upprunalega frá meginlandi Evrópu og séu slæðingar sem fylgja mönnum. Hann segir að þessar plöntur eigi auðveldara með að dreifa sér þegar það hlýnar eins og núna er raunin og í sumum tilfellum þá taki Spánarkerfillinn hreinlega yfir heilu garðana. Eins sé mjög slæmt ef að Skógarkerfill tekur yfir garða, því hann er hávaxinn og byrgir fyrir sólina og myndar þétta breiðu. Þá vex ekkert undir, jörðin verður ber og þá er hætt við að jarðvegurinn skolist til og það verði jarðrof. Narfi segir að hægt sé að uppræta mikið af þessu með réttum verkfærum. „Varðandi risa hvannirnar þá er mikilvægt að vera í hlífðarfatnaði þegar staðið er í því. Erfiðast er að eiga við geitakálið, það skýtur rótum og ef eitthvað verður eftir af rótunum þá lifnar allt við og kemur upp aftur. Það er best að breiða yfir með dúk eða pappa og fylgjast með þessu, þetta tekur bara tíma. En það er rétt að það komi fram að þessar plöntur eiga alveg jafn mikinn rétt á sér eins og allt annað. Okkur skortir bara sama dýralíf hér eins og er í Evrópu, þá eru villisvín og dá-dýr vappandi um allt og í því er aðhald frá náttúrunnar hendi. Eins eru skordýr og sveppir sem hjálpa til að halda þessum plöntum í skefjum þar, sem eru svo ekki hér á landi.“ segir Narfi að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA