Fyrsta íbúðarhúsnæði á Bíldudal í 29 ár reist á tveimur vikum

Nýja íbúðarhúsnæði Ískalks á Bíldudal. Mynd: Einar Sveinn Ólafsson.

Íslenska kalkþörungafélagið lét reisa á dögunum fyrsta íbúðarhúsnæðið sem byggt er í 29 ár á Bíldudal. Það eru tvær vikur síðan húsið komi til landsins og í dag er búið að reisa það og nánast allt tilbúið svo hægt sé að búa í því.

Einar Sveinn Ólafsson hjá Íslenska kalkþörungafélaginu segir að þetta sé gert til að skapa góðar aðstæður fyrir starfsmenn fyrirtækisins, núverandi og framtíðarstar-smenn. Hann segir að bygging húsnæðis sé auðvitað ekki meginrekstur fyrirtækisins en að það sé nauðsynlegt að það sé gert.

„Sveitarfélög eru ekki nógu burðug í litlum samfélögum sem þessum til að beita sér fyrir einhverju svona og svo er kannski ekki trú í samfélögunum sem hafa brotnað svona niður að það sé framtíð á svæðinu. Það má því segja að það sé samfélagsskylda fyrirtækja að styðja og byggja upp, þó það falli ekki að meginstarfseminni og þá kemur bara að því síðar að húsnæðið er selt.“ segir Einar Sveinn.

Í húsnæðinu eru fjórar stúdíóíbúðir. Mynd: Einar Sveinn Ólafsson.

Einar Sveinn segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi verið búin að horfa í kringum sig hvernig væri hægt að gera þetta fljótlega og á ódýran hátt. Svo hafi þau fundið þetta eistneska fyrirtæki og í janúar síðastliðnum skrifað undir samning við það. Áður hafði verið sótt um þessa lóð og farið með hugmyndina í gegnum grenndarkynningu og var tekið vel í þetta þar.

„Þetta hús er 430 fermetrar og var í grunninn fjögurra íbúða raðhús. Við létum breyta þessu í fjórar stúdíóíbúðir sem eru 53 fermetrar hver. Þetta er eitt rými, svo er baðherbergi og þvottahús. Það er varmadæla fyrir hvert hús og svo er innbú og húsgögn sem fylgja, það er allt með meira að segja rúmföt og handklæði, lýsing og lagnir. Eina sem eftir er, er að tengja varmadælurnar og svo bíðum við eftir ljós-leiðara.“ segir Einar Sveinn.

Einar Sveinn segir að lokum að vandamál á svæðinu sé skortur á lykilþáttum í inn-viðum. Það vanti iðnaðarmenn og þeir sem séu á svæðinu séu flestir einyrkjar og lítil fyrirtæki þannig að þegar það þarf að byggja hratt og stórt þá hafa þessir aðilar ekki tök á því. Svo bætist við flutningskostnaður og þá er þetta orðið ansi kostnaðarsamt. Það hafi verið aðal ástæðan fyrir því að þessi leið hafi verið farin og spáir Einar Sveinn því að fleiri fyrirtæki og sveitarfélög muni fylgja á eftir og fara samskonar leið.

Aron

aron@bb.is

DEILA