Færðu Björgunarbátasjóði hjartastuðtæki

Tinna Hrund Hlynsdóttir, Smári Gestsson og Siggeir Gestsson.

Nú hefur hópurinn á bak við Stöndum saman Vestfirðir afhent björgunarbátasjóði á Patreksfirði samskonar hjartastuðtæki og þær færðu Björgunarfélagi Ísafjarðar um daginn. Það var Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg, sem afhenti tækið og þeir Siggeir Guðnason og Smári Gestsson tóku við því fyrir björgunarskipið Vörð á Patreksfirði. Söfnunin hófst snemma í sumar og það leið ekki langur tími þangað til upphæðin fyrir tveimur tækjum var komin. Áður hafði Stöndum saman hópurinn safnað fyrir samskonar tækjum í lögreglubílana á Patreksfirði, Ísafirði og á Hólmavík. Tækið sem var fyrir í björgunarskipinu Gunnari Friðrikssyni á Ísafirði var mjög gamalt en ekkert tæki var í Verði á Patreksfirði. Það var því verðugt verkefni að koma alsjálfvirkjum hjartastuðtækjum í þessa tvo báta, enda getur það skipt sköpum við björgun mannslífa á sjó og landi. Reiknað er með að næsta söfnun hjá sjóðnum fari af stað í haust.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA