Erfitt sumar hjá strandveiðimönnum

Það er óhætt að segja að það sé aldrei dauð stund hjá Hirti Sigurðarsyni, hafnarverði Patreksfjarðar. Mikið er um skipakomur reglulega, skemmtiferðaskip, skútur og svo auðvitað sjómennirnir. Hjörtur sagði blaðamanni BB að sumarið hefði reynst erfitt er strandveiðar varðar og veðurfarið hefði ekki hjálpað. „Þetta er búið að vera frekar erfitt sumar hjá strandveiðimönnum. Það hefur verið erfitt tíðarfar, þessi ríkjandi suðvestan átt er alltaf erfið hér á slóðum.“

Skútur stoppa reglulega í Patreksfjarðarhöfn á sumrin, þessi skúta kom frá Sviss. Mynd: Hjörtur Hjartarson.

Hjörtur segir að veiðin sé þó eitthvað að glæðast. „Það eru engin met slegin en þetta gengur aðeins betur núna heldur en fyrr í sumar. Þetta er vel sótt, það eru að jafnaði 40 bátar á sjó daglega. Núna er makríllinn kominn á miðin og það eru alltaf fréttir, þeir eru farnir að veiða eitthvað af honum.“ segir Hjörtur að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is